Kröfugerðin skýr en upphæðin ekki

Ekki er búið að boða til nýs fundar hjá sáttasemjara.
Ekki er búið að boða til nýs fundar hjá sáttasemjara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir kröfugerð sambandsins skýra í kjaradeilunni við ríkið og sveitarfélög.

Engin upphæð liggi þó fyrir af þeirra hálfu heldur sé það ósk sambandsins að samkomulag frá árinu 2016, um jöfnun launa milli markaða, verði virt.

„Ef ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga eru ekki tilbúin í það verkefni að vinna að okkar kröfum þá verða þau að svara fyrir það, ekki ég. Við erum alveg skýr hverju við viljum ná fram í þessum kjarasamningi,“ segir Magnús Þór.

Ekki hefur verið boðað til annars fundar í kjaradeilu kennara, sveitarfélaga og ríkisins, með sáttasemjara.

Veit ekki upphæðina í verkfallssjóðnum

Á baráttufundi kennara í gær sagði hann kennara tilbúna í langvinna baráttu fyrir kröfum sínum.

„Verkefnið er ekki flókið, það þarf að gera kjarasamninga við kennarasambandið,“ segir Magnús Þór.

Er verkfallssjóðurinn nógu umfangsmikill eða hvernig er staðan á honum?

„Ég veit það ekki, það er bara þannig. Ég veit bara af því að mat stjórnar verkfallssjóðsins er það að hann standi vel og við bara vinnum út frá því. Enda er hann ekki „issue“ í hlutunum. Hann er ætlaður til að standa á bak við kennara í vinnudeilu og hann er að gera það núna.“

Verkfallsaðgerðir standa nú yfir í níu skólum og hafa fjögur verkföll verið boðuð til viðbótar.

Þá hefur KÍ ekki útilokað að fleiri verkföll verði boðuð.

„Verkefnið er lifandi verkefni. Við erum að vinna í þeirri stöðu eins og hún er. Það hefur ekki verið boðað til fundar enn þá. Það eru þreifingar í gangi en við höfum ekki átt formlegan fund. Á meðan erum við bara að undirbúa okkur undir næstu fundi. Þetta eru sársaukafullar aðgerðir og við vonum að þeim ljúki sem fyrst með kjarasamningi.“

Vinna að því að finna viðmiðunarhópa

Sambands íslenskra sveitarfélaga segir enga formlega kröfugerð liggja fyrir frá KÍ og kærði verkfallsaðgerðir sambandsins til Félagsdóms. Verkfallið var dæmt lögmætt.

Magnús Þór segir kröfugerð liggja fyrir og vísar m.a. í dóm Félagsdóms.

„Þetta snýst fyrst og fremst um það að það var gert samkomulag um það 2016 að grunnlaunasetning sérfræðinga í fræðslugeiranum og annarra sérfræðinga á opinberum markaði skyldu jafnsett launum á almennum markaði og það er verkefnið sem við erum að vinna. Það er flókið verkefni en löngu tímabært að klára það.“

Hvað felst í því?

„Það felst í því að finna viðmiðunarhópa kennara á almennum markaði og jafna laun þeirra í samræmi við þessar niðurstöður sem að samanburðurinn leiðir í ljós.“

Engin upphæð komin fram

Vitið þið hvað það gæti verið mikið í prósentum?

„Það eru náttúrulega til alls konar – Hagstofan heldur utan um tölurnar. Þannig að þeir eru með nýjustu og réttustu tölurnar hver er viðmiðunartala að meðaltali sérfræðinga á almennum markaði og sérfræðinga í fræðslugeiranum. Það er tala sem þeir gefa út. Það eru svona einhverjar vísbendingar,“ segir Magnús Þór og heldur áfram:

„En við vitum að það er ýmislegt sem þarf að vinna í gegnum þessar tölur þannig að við höfum ekki verið tilbúin eða viljað setja hvorki prósentur né krónutölur á heldur bara vísað í það að það þarf að standa við samkomulag sem ríki og sveitarfélög gera við sitt launafólk.“

Þannig þið hafið ekki lagt fram ákveðna upphæð?

„Nei.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka