Heilbrigðisráðuneytið hefur staðfest ákvörðun Landspítalans um að hafna umsókn íslenskrar konu um niðurfellingu sjúklingagjalda að upphæð um 1,3 milljónir króna en konan kærði ákvörðun Landspítalans um að hafna niðurfellingu gjaldanna í ágúst.
Úrskurðurinn var kveðinn upp í heilbrigðisráðuneytinu í síðasta mánuði en í júlí hafnaði Landspítalinn kröfu konunnar.
Í úrskurði heilbrigðisráðuneytisins kemur fram að konan, sem er íslenskur ríkisborgari, hafi verið búsett í Bandaríkjunum þar sem hún hefur lögheimili. Hún kom til Íslands seinnihluta maí á þessu ári. Hún var í kjölfarið lögð inn á gjörgæslu þar sem hún naut heilbrigðisþjónustu í tvo daga. Eftir útskrift leitaði hún á göngudeild Landspítalans í fjögur skipti án þess að leggjast inn.
Þar sem konan var ósjúkratryggð á umræddu tímabili var henni gerður reikningur upp á 1.246.283 krónur vegna legu sinnar á Landspítala auk þess sem henni var gerður reikningur upp á 57.604 krónur vegna komu sinnar í fjögur skipti á göngudeild eftir að legu lauk.
Fram kemur í úrskurði heilbrigðisráðuneytisins að konan hafi í júlí óskað eftir því við Landspítala að reikningur fyrir legu hennar á spítalanum frá 27. til 29. maí yrði felldur niður. Í ákvörðun Landspítalans vegna umsóknar konunnar kom fram að hún hefði verið ósjúkratryggð á því tímabili sem hún naut þjónustu spítalans.
Á grundvelli reglugerðar um heilbrigðisþjónustu við þá sem ekki eru sjúkratryggðir á Íslandi og greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustuna, væri Landspítala skylt að innheimta kostnað vegna legu og komugjalda samkvæmt gjaldskrá vegna ósjúkratryggðra frá sjúklingum og gæta jafnræðis við þá innheimtu. Var umsókn konunnar af þeim sökum hafnað og það var sú ákvörðun sem var kærð til ráðuneytisins.
Konan byggði kæru sína á að aðstæðar hennar hefðu verið bágbornar. Hún hefði glímt við veikindi auk þess þau kostuðu hana umtalsverða fjármuni, bæði vegna þjónustu Landspítala og utan hans. Þá byggði hún kæru sína á því að hún væri íslenskur ríkisborgari og hefði verið með lögheimili á Íslandi skömmu áður.
Af þeim sökum hefði hún óskaði eftir því að innheimta spítalans vegna legu hennar á Landspítalanum í umrædd skipti frá 27. til 29. maí yrði líkt og hún hefði enn verið með lögheimili á Íslandi eða hún lækkuð verulega.
Í ákvörðun sinni bendir Landspítalinn á að samkvæmt lögum um sjúkratryggingar falli niður réttur til greiðsluþátttöku sjúkratrygginga þegar einstaklingur flytji búsetu sína frá Íslandi.
Landspítali tekur fram að innheimta á sjúklingagjöldum hjá Landspítala fari fram með þeim hætti að tölvukerfi spítalans sé með tengingu við grunna Sjúkratrygginga Íslands um hvort einstaklingar séu sjúkratryggðir hér á landi eða ekki.