Máttu rukka íslenska konu um 1,3 milljónir

Konan leitaði til Landspítalans í maí vegna veikinda sinna.
Konan leitaði til Landspítalans í maí vegna veikinda sinna. mbl.is/Jón Pétur

Heil­brigðisráðuneytið hef­ur staðfest ákvörðun Land­spít­al­ans um að hafna um­sókn ís­lenskr­ar konu um niður­fell­ingu sjúk­linga­gjalda að upp­hæð um 1,3 millj­ón­ir króna en kon­an kærði ákvörðun Land­spít­al­ans um að hafna niður­fell­ingu gjald­anna í ág­úst.

Úrsk­urður­inn var kveðinn upp í heil­brigðisráðuneyt­inu í síðasta mánuði en í júlí hafnaði Land­spít­al­inn kröfu kon­unn­ar.

Í úr­sk­urði heil­brigðisráðuneyt­is­ins kem­ur fram að kon­an, sem er ís­lensk­ur rík­is­borg­ari, hafi verið bú­sett í Banda­ríkj­un­um þar sem hún hef­ur lög­heim­ili. Hún kom til Íslands seinnihluta maí á þessu ári. Hún var í kjöl­farið lögð inn á gjör­gæslu þar sem hún naut heil­brigðisþjón­ustu í tvo daga. Eft­ir út­skrift leitaði hún á göngu­deild Land­spít­al­ans í fjög­ur skipti án þess að leggj­ast inn.

Þar sem kon­an var ósjúkra­tryggð á um­ræddu tíma­bili var henni gerður reikn­ing­ur upp á 1.246.283 krón­ur vegna legu sinn­ar á Land­spít­ala auk þess sem henni var gerður reikn­ing­ur upp á 57.604 krón­ur vegna komu sinn­ar í fjög­ur skipti á göngu­deild eft­ir að legu lauk.

Ekki sjúkra­tryggð þegar hún naut þjón­ustunnar

Fram kem­ur í úr­sk­urði heil­brigðisráðuneyt­is­ins að kon­an hafi í júlí óskað eftir því við Land­spít­ala að reikn­ing­ur fyr­ir legu henn­ar á spít­al­an­um frá 27. til 29. maí yrði felld­ur niður. Í ákvörðun Land­spít­al­ans vegna um­sókn­ar kon­unn­ar kom fram að hún hefði verið ósjúkra­tryggð á því tíma­bili sem hún naut þjón­ustu spít­al­ans.

Á grund­velli reglu­gerðar um heil­brigðisþjón­ustu við þá sem ekki eru sjúkra­tryggðir á Íslandi og greiðslur fyr­ir heil­brigðisþjón­ust­una, væri Land­spít­ala skylt að inn­heimta kostnað vegna legu og komu­gjalda sam­kvæmt gjald­skrá vegna ósjúkra­tryggðra frá sjúk­ling­um og gæta jafn­ræðis við þá inn­heimtu. Var um­sókn kon­unn­ar af þeim sök­um hafnað og það var sú ákvörðun sem var kærð til ráðuneyt­is­ins.

Bágbornar aðstæður

Kon­an byggði kæru sína á að aðstæðar henn­ar hefðu verið bág­born­ar. Hún hefði glímt við veik­indi auk þess þau kostuðu hana um­tals­verða fjár­muni, bæði vegna þjón­ustu Land­spít­ala og utan hans. Þá byggði hún kæru sína á því að hún væri ís­lensk­ur rík­is­borg­ari og hefði verið með lög­heim­ili á Íslandi skömmu áður.

Af þeim sök­um hefði hún óskaði eft­ir því að inn­heimta spít­al­ans vegna legu henn­ar á Land­spít­al­an­um í um­rædd skipti frá 27. til 29. maí yrði líkt og hún hefði enn verið með lög­heim­ili á Íslandi eða hún lækkuð veru­lega.

Í ákvörðun sinni bend­ir Land­spít­al­inn á að sam­kvæmt lög­um um sjúkra­trygg­ing­ar falli niður rétt­ur til greiðsluþátt­töku sjúkra­trygg­inga þegar ein­stak­ling­ur flytji bú­setu sína frá Íslandi. 

Land­spít­ali tek­ur fram að inn­heimta á sjúk­linga­gjöld­um hjá Land­spít­ala fari fram með þeim hætti að tölvu­kerfi spít­al­ans sé með teng­ingu við grunna Sjúkra­trygg­inga Íslands um hvort ein­stak­ling­ar séu sjúkra­tryggðir hér á landi eða ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert