Um 300 manns komu saman á fundi til að ræða um áform um þéttingu byggðar í Grafarvogi og fyrirhugaða Sundabraut. Íbúar eru ekki par sáttir við fyrirhugaða uppbyggingu.
„Það var full samstaða um að verið sé að ganga of langt í þessum áætlunum,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, en hann hélt fundinn ásamt Diljá Mist Einarsdóttur, þingmanni og formanni efnahags- og viðskiptanefndar.
Brynjar Níelsson var fundarstjóri.
Miklar breytingar horfa við Grafarvogsbúum á komandi misserum en reisa á 15.000 manna byggð í Keldnalandi, þétta byggð í Grafarvogi og uppbygging á Sundabraut stendur einnig til.
„Fólk er mjög óánægt með fyrirætlun borgarinnar þegar kemur að þéttingunni þar sem er verið að fara í þessi grænu svæði sem fólk hefur gengið að sem útivistarsvæðum fram til þessa,“ segir Guðlaugur.
„Allir sem tóku til máls lýstu gríðarlega miklum áhyggjum og óánægju með framgöngu flokkanna í meirihluta borgarstjórnar.“
Segir Guðlaugur um margt fýsilegra að byggja upp Sundagöng fremur en Sundabraut og kveðst hafa kynnt þá hugmynd fyrir íbúum við góðar undirtektir.
„Við þurfum að fá þessa samgöngubót en þetta má ekki verða til þess að kljúfa Grafarvoginn í tvennt með hraðbraut. Það er eitthvað sem myndi rýra lífsgæði íbúanna mjög mikið.“
Guðlaugur er sjálfur íbúi í Grafarvogi og spurður hvort málefnið standi honum sérstaklega nærri vegna þessa segir hann málefni Reykjavíkur almennt standa sér nærri. Málefni Reykvíkinga séu líka kosningamál.
„Auðvitað þekki ég hverfið mjög vel, en þó að ég sé ráðherra þá hef ég haft skoðanir og afskipti ekki bara hér í Grafarvogi heldur líka í Skerjafirðinum, Elliðárdalnum og Laugardalnum þar sem einnig er verið að ganga á græn svæði og ósnortnar strandlengjur.“
Annar íbúafundur fer fram á þriðjudaginn næstkomandi en þá er borgarstjóra, borgarfulltrúum og frambjóðendum til Alþingis í Reykjavíkurkjördæmi norður boðið á fundinn.