Móðir barns á leikskóla Seltjarnarness, sem er í hópi þeirra foreldra sem skorað hafa á Kennarasamband Íslands (KÍ), að láta af því sem foreldrarnir vilja meina að séu ólögmætar verkfallsaðgerðir, er ósátt við viðbrögð formanns KÍ í gær
„Það hefur verið skýr krafa okkar foreldrana að þau taki það alvarlega til greina að endurskoða þessar aðferðir sínar. Það er ekki mitt hlutverk frekar en annarra foreldra að leggja til hvernig það verði gert, ekki nema bara að horft sé til hagsmuna barna og að aðgerðirnar feli ekki í sér mismunun,“ segir Margrét Dagbjört Flygenring í samtali við mbl.is.
Hún á barn á leikskóla Seltjarnarness og situr þar í foreldraráði. Leikskólinn er einn fjögurra leikskóla á landinu þar sem leikskólakennarar eru í ótímabundnu verkfalli. Þá standa yfir tímabundin verkföll í þremur grunnskólum, einum framhaldsskóla og einum tónlistarskóla.
Fram hefur komið að umboðsmaður barna telji að með aðgerðunum sé þeim börnum þar sem verkföll standa yfir mismunað hvað varðar rétt þeirra til menntunar. Þá áréttaði umboðsmaður mikilvægi þess að farið væri eftir ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þegar kæmi að verkfallsaðgerðum.
Leggja þyrfti sérstakt mat á það hvaða áhrif ákvarðanir og ráðstafanir hefðu á börn. Leita þyrfti allra leiða til að fyrirbyggja slíkt og grípa til mótvægisaðgerða.
Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, sagði í samtali við mbl.is í gær að enginn vafi léki á lögmæti aðgerðanna en ljóst væri að þær bitu. Verkfallsrétturinn væri heilagur hjá stéttarfélögum. Spurður út í mat umboðsmanns barna og þá niðurstöðu að umboðsmaður teldi börnunum mismunað sagði hann að svarið væri það sama.
„Mér finnst hálf ótrúlegt að hann leyfi sér að koma svona fram þegar það eru alvarlegar ásakanir í gangi um að Kennarasambandið, sem hann er í forsvari fyrir, kjósi að beita aðgerðum sem séu að mismuna börnum og jafnvel brjóta á þeirra réttindum,“ segir Margrét en tekur jafnframt skýrt fram að hún efist ekki um verkfallsréttinn.
Ekki sé verið að gagnrýna kjarabaráttuna eða það að kennarar hafi ákveðið að fara í verkföll. Foreldrar séu ósáttir við útfærsluna sem slíka og um það snúist gagnrýnin.
„Við efumst ekki um verkfallsréttinn, hann er skýr. Eins og formaður Kennarasambandsins vísar ítrekað í þá dæmdi Félagsdómur verkfallið löglegt. Þar var verið að horfa til þess hvort þau væru með nógu skýrar kröfur, þar var ekki verið að dæma útfærsluna sem slíka. Það var ekki dæmt löglegt að mismuna börnum og það var ekki verið að minnast á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar, þannig mér finnst þetta útúrsnúningur og eðlilegt að hann svari þessu málefnalega,“ segir Margrét.
„Það er gríðarlegur ábyrgðarhluti að fara í aðgerðir sem skerða réttindi barna til menntunar hvort sem það er lögbundið eins og grunnskólastigið eða þá leikskólar og framhaldsskólar, þar sem er ekki skólaskylda.“
Margréti finnst formaður KÍ ekki hafa svaraði því skýrt hvort framkvæmt hafi verið mat á hagsmunum barna þegar ákveðið var að útfæra aðgerðirnar með þeim hætti sem gert er og að þær næðu aðeins til örfárra skóla. Hún vill fá að vita hvernig það var ákveðið að velja aðeins 4 leikskóla af 270 á landinu og af hverju var ákveðið að hafa aðgerðirnar ótímabundnar á leikskólum en tímabundnar á öðrum skólastigum.
Hún segir því hafa verið fleygt fram að ástæðan sé sú að það sé skólaskylda í grunnskóla, en í því samhengi bendir hún á að ekki sé skólaskylda í framhaldsskólum. Samt sé farið í tímabundnar aðgerðir þar.
Henni finnst það skjóta skökku við í ljósi þess að leikskólinn er í dag viðurkenndur sem fyrsta skólastigið þrátt fyrir að ekki sé um lögbundna skólaskyldu að ræða. Þar sé gerð krafa um ákveðið hlutfall fagmenntaðra starfsmanna sem sé vel yfir því sem þekkist í mörgum leikskólum landsins.
Umræðan hafi oft verið á þá leið að foreldrar og samfélagið í heild líti frekar á leikskólann sem barnapössun en menntastofnun og þessi mismunur á aðgerðum sé til þess fallinn að ýta frekar undir þau viðhorf heldur en að gera leikskólanum hátt undir höfði eins og hann á skilið, að mati Margrétar.
„Með því að setja leikskólana í ótímabundin verkföll þá finnst mér Kennarasambandið vera að senda þau skilaboð að það sé allt í lagi að þessi börn missi úr ótímabundið. Mér finnst vera gert lítið úr leikskólastiginu með þessum aðgerðum,“ segir Margrét sem vill meina að að auðvelt hefði verið að samræma aðgerðir á milli skólastiga.
Þá segir hún að í Leikskóla Seltjarnarness sé um 60 prósent starfsfólks fagmenntað. Áhugavert sé að velta fyrir sér þeim skilaboðum sem verið sé að senda leikskólum sem hafa staðið sig hvað best í að fá til sín og halda í fagmenntað fólk.
„Mér finnst mjög alvarlegt ef við sem samfélag samþykkjum að Kennarasamband Íslands tefli fram aðgerðum þar sem börnum er mismunað með augljósum hætti, þegar það er ekki nauðsynlegt. Það hefði verið hægt að fara aðrar leiðir. Ég spyr mig hvaða fordæmi við erum að setja með þessu. Ef það er í lagi að Kennarasambandið brjóti Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna, hvaða skilaboð erum við þá að senda?“ spyr Margrét.
„Það er fyrst og fremst hlutverk okkar foreldra að gæta hagsmuna barnanna. Ég ítreka það sem ég hef sagt, við erum að gagnrýna aðgerðirnar sem var farið í, ekki kjarabaráttuna eða verkfallsréttinn. Þar af leiðandi beinum við máli okkar til KÍ en ekki Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS).
Við erum ekki að gagnrýna kjarabaráttuna og þetta hefur ekkert með stuðning okkar við kennara að gera. Þetta er tvennt ólíkt og mikilvægt að greina þarna á milli. Við vorum að málin leysist sem allra fyrst en þangað til þarf að tryggja að hagsmunir og réttindi barna séu tryggð. Síðar í mánuðinum er sérstakur dagur mannréttinda barna, það er kaldhæðnislegt að á sama tíma séu þessar aðgerðir í gangi.“
Hún segir það ótrúlega aðferðarfræði að kasta 598 börnum af þeim 20.000 sem eru á íslenskum leikskólum fyrir borð um óákveðinn tíma, í nafni kjarabaráttu.
„Það er verið að svipta 598 börn sinni menntun, sinni rútínu og öryggi um óákveðinn tíma. Það er gríðarleg ábyrgð sem liggur að baki því að fara í svona aðgerðir. Ég tel að það þurfi að endurskoða framkvæmdina.“