Ábendingar borist vegna leikskóla

Leikskólinn er sjálfstætt starfandi.
Leikskólinn er sjálfstætt starfandi. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg hafa borist nokkrar ábendingar á síðustu dögum vegna ungbarnaleikskólans Lundar.

Þetta staðfestir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs borgarinnar. Hann segir ekki tímabært að greina frá því hvers eðlis ábendingarnar séu.

Hann segir borgina þurfa að vera sérstaklega vakandi fyrir athugasemdum er varða ungbarnaleikskóla enda séu börnin á þeim aldri að þau geti ekki tjáð fullorðnum ef eitthvað kemur upp.

Að sögn Helga hefur borgin ekki upplýst foreldra barna á leikskólanum um ábendingarnar.

„Við verðum fyrst að kanna. Eðli málsins samkvæmt þá skiptir mjög miklu máli að þetta sé byggt á áreiðanlegum upplýsingum en við tökum öllum ábendingum alvarlega.“

Fóru fram á úrbætur

Fyrsta ábendingin um leikskólann barst borginni fyrir þremur vikum.

„Í kjölfarið fórum við í skoðun í leikskólanum á því atriði sem þar kom fram og fórum fram á úrbætur tengt því,“ segir Helgi.

Á síðustu dögum hafa síðan borist fleiri ábendingar. 

„Þetta eru nokkrar athugasemdir sem við erum að vinna út frá. Þær eru nokkuð í sömu lund. Við erum að fara núna inn í leikskólann til að fara betur yfir aðstæður þar.“

Væntum þess að öll spil séu upp á borðum

Um 40 til 60 börn eru á leikskólanum sem er sjálfstætt starfandi. Borgin fer með eftirlitsskyldu með öllum leikskólum í Reykjavík, þar á meðal þessum. 

„Við förum árlega í eftirlit í sjálfstætt starfandi leikskóla. Það eru ekki fyrirvaralausar heimsóknir, eins og er í góðu samfélagi. Við væntum þess að öll spil séu uppi á borðum en þegar það koma ábendingar förum við í fyrirvaralausar heimsóknir og það er mjög sjaldgæft enda erum við í góðu samstarfi við sjálfstætt starfandi skólana,“ segir Helgi og bætir við:

„En eðlilega þegar það koma athugasemdir þá þarf að bregðast við þeim, hvort sem heldur er sjálfstætt starfandi leikskóli eða borgarrekinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert