Voru alvarlega veikar og greindust að lokum með alnæmi

Eftir margra mánaða samskipti við lækna fóru konurnar alvarlega veikar …
Eftir margra mánaða samskipti við lækna fóru konurnar alvarlega veikar á Landspítala. Nokkru síðar greindust þær með alnæmi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tvær ungar íslenskar konur sem höfðu verið veikar mánuðum saman greindust með alnæmi eftir að hafa verið seint greindar með HIV-sýkingu.

Fram kemur í Læknablaðinu að báðum konunum hafi verið vísað á Landspítalann eftir marga mánaða samskipti við lækna. Heilsu þeirra hafði hrakað vegna ýmissa versnandi einkenna. Þær voru með áberandi þyngdartap og klínísk teikn um bólgu/sýkingu.

„Fyrri konan var við komu á Landspítala með alvarleg öndunarfæraeinkenni og var á meðferð vegna lungnabólgu eftir að dreifðar hélubreytingar höfðu sést í báðum lungum. Hún hafði sögu um hvítsveppasýkingu í vélinda og endurtekna keiluskurði vegna hááhættu HPV-sýkingar,“ segir á vef Læknablaðsins.

„Seinni konan kom fyrst á Landspítala vegna versnandi mæði og óljósra dreifðra einkenna. Hún hafði einnig sögu um hááhættu HPV-sýkingu og klamydíu. Konan var send heim frá spítalanum en kom aftur viku seinna og var þá bráðveik og þurfti gjörgæslumeðferð. Lungnamynd sýndi hélubreytingar beggja vegna og hún reyndist einnig með hvítsveppasýkingu í vélinda.“

Í báðum tilfellum reyndist lungnabólgan vera af völdum Pneumocystis jirovecii-sveppasýkingar. Báðar konurnar reyndust HIV-jákvæðar og aðrar rannsóknir staðfestu greiningu á alnæmi.

Bent er á að HIV virðist of neðarlega á lista yfir mismunagreiningar heilbrigðisstarfsfólks.

„Þar sem umræddar konur voru ekki með augljósa áhættuþætti, þá hvarflaði HIV-smit ekki að læknum sem þær leituði til yfir margra mánaða tímabil vegna óútskýrðra einkenna. Þröskuldur fyrir að prófa fyrir HIV-smiti ætti að vera lægri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert