Vilberg Valdal Vilbergsson, rakari og heiðursborgari Ísafjarðarbæjar, lést 6. nóvember á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík, 94 ára að aldri.
Vilberg, eða Villi Valli eins og hann var gjarnan nefndur, fæddist á Flateyri 26. maí 1930. Foreldrar hans voru Vilberg Jónsson, vélsmiður á Flateyri, og Jóhanna Steinunn Guðmundsdóttir húsmóðir.
Villi bjó lengstum á Ísafirði og var útnefndur heiðursborgari Ísafjarðarbæjar árið 2018. Hann starfaði sem hárskeri í bænum í 64 ár, frá 1950 til 2014, þar af sem rakarameistari frá 1954. Lærði hann iðnina hjá Árna Matthíassyni á Ísafirði.
Tónlistin lék stórt hlutverk í lífi Villa Valla. Snemma fór hann að leika á hljóðfæri og aðeins 12 ára að aldri lék hann á harmoniku á sínum fyrsta dansleik á Flateyri. Hann lék síðar með mörgum hljómsveitum og einnig með Lúðrasveit Ísafjarðar, sem hann stjórnaði í nokkur ár. Þá var hann félagi í Harmonikufélagi Vestfjarða. Árið 2001 var hann útnefndur bæjarlistamaður Ísafjarðar.
Villi lék á mörg hljóðfæri en hans uppáhalds voru nikkan og saxófónninn. Hann samdi tónlist og hljóðritaði þrjá hljómdiska. Þeir eru Villi Valli, sem kom út 2000, Í tímans rás 2008 og Ball í Tjöruhúsinu árið eftir, þar sem hann lék með Saltfisksveit Villa Valla. „Ég var í hljómsveitum og var með hljómsveitir frá því ég var unglingur,“ sagði Villi m.a. í viðtali í Morgunblaðinu árið 2019.
Eiginkona Villa var Guðný Magnúsdóttir, f. 1929 á Seyðisfirði, d. 2017. Þau eignuðust fjögur börn; Rúnar Hartmann, f. 1951, Söru Jóhönnu, f. 1956, Bryndísi, f. 1959, og Svanhildi, f. 1964. Barnabörnin eru átta, langafabörnin fimm og eitt langalangafabarn.