Komi til verkfalla lækna verður engin læknisþjónusta á heilsugæslustöðvum landsins þann tíma sem verkföll standa yfir. Ekki verður hægt að hægt að fá lyf endurnýjuð eða koma í eftirlit af neinu tagi. Einn læknir verður þó á hverri stöð og má hann sinna mjög aðkallandi verkefnum.
Þetta segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is.
Félagar í Læknafélagi Íslands samþykktu í gær að hefja verkfallsaðgerðir þann 25. nóvember náist samningar ekki fyrir þann tíma. Verkföllin ná til þeirra lækna sem starfa hjá hinu opinbera; á Landspítalanum og heilbrigðisstofnunum um allt land, sem og á öllum heilsugæslustöðvum, fyrir utan þær einkareknu.
„Þetta mun hafa mikil áhrif og þetta er mikið áhyggjuefni. Við vonum svo innilega að þetta leysist og að ekki komi til verkfalla,“ segir Sigríður.
Verkföll lækna koma til með að hafa víðtæk áhrif á nánast alla starfsemi heilsugæslunnar.
„Það þýðir að það verður engin læknisþjónusta á heilsugæslustöðvum þessa daga sem verkfall er. Við getum haldið úti þjónustu þar sem engin aðkoma lækna, eins og ungbarnavernd, mæðravernd og fleira en allt það sem læknar blandast inn í, þar verður engin þjónusta og fólk getur ekki endurnýjað lyf, sent inn lyf eða komið í neitt eftirlit.“
Sigríður tekur þó fram að öryggisþjónusta verði til staðar á öllum heilsugæslustöðvum svo hægt verði að sinna mjög aðkallandi málum. Önnur læknisþjónusta verði ekki í boði, ekki einu sinni bráðaþjónusta.
„Það verður engin, hvorki bráðaþjónusta né hefðbundnir tímar. Eina sem verður, það verður öryggisþjónusta á hverri stöð ef eitthvað mjög aðkallandi er. Það verður læknir við á hverri stöð, en hann má ekki ganga í störf. Hann bara sinnir því sem er mjög brátt.“
Aðspurð hvort það geti skapast neyðarástand við slíkar aðstæður segir Sigríður verkföllin aðallega koma til með að hafa þau áhrif að enn lengri bið verði eftir tímum hjá læknum og úrræðum.
„Þetta mun búa til enn þá stærri kúf af verkefnum sem við erum ekki búin að leysa og komumst ekki yfir að leysa. Þannig það mun taka tíma að vinda ofan af öllu því. Þetta er því að öllu leyti mikið áhyggjuefni.“
Hún segist mátulega bjartsýn á að samningar náist áður en verkföll skella á.
„Ég veit að það er verið að skoða þetta frá mörgum sjónarhornum en það er mjög mikilvægt að það verði líka hugað að áherslum heimilislækna og heilsugæslunnar í þessum kjarasamningum. Að það endurspeglist í þessum samningum.“
Líkt og áður sagði hefjast verkfallsaðgerðir þann 25. nóvember.
Fyrstu vikuna verða allir vinnustaðir lækna í verkfalli frá mánudegi 25. nóvember til fimmtudags 28. nóvember, frá miðnætti til kl. 12 að hádegi. Næstu vikuna verða allir vinnustaðir lækna í verkfalli frá miðnætti til kl. 12 á hádegi þriðjudaginn 3. desember og fimmtudaginn 5. desember. Í þriðju vikunni verða allir vinnustaðir lækna aftur í verkfalli frá mánudegi 9. desember til fimmtudags 12. desember frá miðnætti til kl. 12 á hádegi. Í fjórðu vikunni verða allir vinnustaðir lækna í verkfalli mánudag 16. desember og miðvikudag 18. desember frá miðnætti til kl. 12 á hádegi,“ að fram kemur í tilkynningu á vef Læknafélags Íslands.
Hlé verður svo á verkfallsaðgerðum frá 20. desember til og með 5. janúar 2025 en þær munu halda áfram með nákvæmlega sama hætti, þ.e. í fjögurra vikna lotum alveg fram að dymbilviku.