Héraðsdómur Reykjavíkur hefur viðurkennt bótaskyldu manns sem rann í hálku við sjálfvirka þvottastöð Löðurs í Stekkjabakka í Breiðholti.
Málsatvik voru þannig að maðurinn lagði bíl sínum í eitt af þvottahólfum stöðvarinnar. Þaðan gekk hann frá þvottarýminu og í átt að greiðsluvél sem ræsir þvottabúnaðinn. Þegar hann steig af þvottagólfinu á malbikaðan hallandi flöt féll maðurinn í hálku án þess að koma vörnum við. Fór hann úr axlarlið í atvikinu.
Fram kemur í dómnum að hitalagnir hafi verið á þvottagólfinu sjálfu en ekki á malbikaða undirlaginu sem hann steig á.
Lögregla var kölluð til og í skýrslu hennar kemur fram að maðurinn hefði verið mjög verkjaður. Starfsmenn Löðurs voru látnir vita af hálkunni og söltuðu þeir undirlagið fyrir utan þvottastöðina í framhaldinu.
Læknir mat manninn með 10% örorku eftir atvikið. Maðurinn sóttist eftir bótum frá Sjóvá og leitaði til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Sjóvá hafnaði bótaskyldu á þeim grunni að málsatvik lægju ekki ljós fyrir og að sök væri ekki sönnuð.
Fram kemur í dómnum að vitni hafi verið í næsta bíl við hinn ólánssama mann. Vitnið staðfesti frásögn um hálkuna á malbikinu og sagðist hafa átt í stökustu vandræðum með að fóta sig þegar það fór að huga að manninum.
Dómurinn tekur því ekki undir með Sjóvá um að maðurinn hefði átt að sýna aðgát og viðurkenndi óskipta bótaskyldu til mannsins.