Milljarðarnir halda áfram að hrannast upp í fyrsta vinningi í EuroJackpot lottóleiknum.
Samkvæmt Íslenskri getspá gekk fyrsti vinningur ekki út í kvöld og var hann rúmir 14 milljarðar og því enn hærri næsta þriðjudag en dregið er í EuroJackpot tvisvar í viku.
Átta miðahafar fengu drjúga upphæð í annan vinning í kvöld eða rúmar 53 milljónir hver. Sjö þeirra keyptu miðana í Þýskalandi og einn í Finnlandi.
Eftir heilmiklu var að slægjast í þriðja vinningi kvöldsins en níu fengu tæpar 27 milljónir. Sex í Þýskalandi og einn í Danmörku, Póllandi og Tékklandi.
Miði sem keyptur var í versluninni Serkjakollu á Kópaskeri skilaði 2 milljónum í fyrsta vinningi í Jókernum í kvöld.