Hönnunarverðlaun Íslands 2024 voru afhent í ellefta sinn í Grósku í gær en þau eru veitt hönnuði, arkitekt, hönnunarteymi eða stofu fyrir framúrskarandi nýleg verkefni.
Dagurinn hófst á því að gestir fengu innsýn í þau níu verkefni sem tilnefnd voru til verðlaunanna í ár í þremur mismunandi flokkum; Vara, Staður og Verk. Auk þess voru veitt sérstök Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands og viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun.
Það voru þau Búi Bjarmar Aðalsteinsson vöruhönnuður og Magnea Guðmundsdóttir arkitekt sem stýrðu samtali við tilnefnda og sáu svo um að kynna verðlaunaafhendinguna sem fram fór fyrir fullum sal.
Vara ársins er peysan James Cook, sem unnin er í samstarfi Helgu Lilju Magnúsdóttur fatahönnuðar og Stephans Stephensen listamanns, fyrir BAHNS. Segir meðal annars í rökstuðningi dómnefndar að peysan James Cook sé frábært dæmi um hvernig góð hönnun geti haft jákvæð félagsleg áhrif.
„Með tímanum hefur orðið til samfélag unnenda James Cook-peysunnar sem með réttu má kallast nútímaklassík í íslenskri hönnun. Tekist hefur að skapa einkennandi mynsturheim sem sækir innblástur í ljósmerki siglingabaujanna sem leiðbeina sjófarendum, en mynstrið er jafnframt að finna í sundfatnaði BAHNS og ýmsum öðrum prjónaflíkum.“
Staður ársins er Smiðja, skrifstofubygging Alþingis eftir Studio Granda. Um valið segir dómnefndin meðal annars að Smiðja sameini á einum stað fundaaðstöðu og skrifstofur þingmanna og starfsfólks Alþingis í fimm hæða byggingu á horni Tjarnargötu og Vonarstrætis í Reykjavík.
„Form byggingarinnar og gluggasetning eru við fyrstu sýn látlaus en steinklæðningin dregur að sér athygli og vísar í jarðsögu landsins og menningarminjar sem finna má í Kvosinni.“
Verk ársins er Börnin að borðinu eftir Þykjó. Í rökstuðningi dómnefndar segir að ímyndunarafli og sköpunarkrafti barna og ungmenna séu fá takmörk sett, ef þau fái á annað borð tækifæri til þess að sleppa þessum kröftum lausum. Með verkefninu Börnin að borðinu sé þeim gefin rödd og mikilvægasta fólkið þannig virkjað til alvöru áhrifa í gegnum það sem þau séu sérfræðingar í, sköpun og leik.
„Hönnunarteyminu Þykjó tekst með frábærri nálgun sinni að fanga hugmyndir og smíða úr þeim tillögur að lausnum sem geta orðið að veruleika. Verkefnið krefst hvors tveggja hugrekkis og trausts því oft er ekki hlustað á börn þó að við heyrum vissulega flest hvað þau segja.“
Heiðursverðlaun ársins hlýtur Gísli B. Björnsson fyrir framlag sitt til grafískrar hönnunar. Um Gísla segir dómnefnd að hann hafi tryggt sér sess sem einn áhrifamesti grafíski hönnuður Íslendinga síðustu áratugi, ekki aðeins með þeim fjölda þekktra verka sem hann hafi skilað af sér yfir starfsferilinn, heldur einnig með framlagi sínu til kennslu í faginu.
Þá hlaut Krónan viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun en að mati dómnefndar er Krónan til fyrirmyndar í margvíslegu samstarfi sínu við hönnuði. „Það byggist á ríkulegri hugmyndaauðgi og framsýni í umhverfismálum sem snýr m.a. að endurvinnslu og ýmiss konar nýtingu hliðarafurða og afganga.“