Goshrinan undir meðallagi stór hingað til

Goshrinan sem nú stendur yfir í Sundhnúkagígaröðinni og í Fagradalsfjalli …
Goshrinan sem nú stendur yfir í Sundhnúkagígaröðinni og í Fagradalsfjalli er enn undir meðallagi stór að mati Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Goshrinan sem nú stendur yfir í Fagradalsfjallskerfinu og hins vegar í Svartsengiskerfinu er enn nokkuð undir meðalstærð þeirra goshrina sem urðu á síðasta gosskeiði á Reykjanesskaganum á árunum 780 til 1240.

Í þeirri goshrinu sem nú stendur yfir á skaganum hafa tæpir 0,2 rúmkílómetrar af kviku komið upp í hvoru kerfinu fyrir sig, en algeng stærð í goshrinum á síðasta gosskeiði var um 0,5 rúmkílómetrar.

Þetta er meðal þeirra niðurstaðna sem kynntar eru í nýrri skýrslu forsætisráðherra um helstu verkefni stjórnvalda og mat á framtíðarhorfum vegna jarðhræringa og eldsumbrota á Reykjanesskaga. Hefur skýrslunni verið dreift á Alþingi, en á sunnudaginn er ár liðið frá því að Grindavík var rýmd í tengslum við miklar náttúruhamfarir sem áttu eftir að ríða yfir bæinn.

Er í skýrslunni vísað í mat Veðurstofunnar og álit Jarðvísindastofnunar. Segir þar að nýtt gosskeið sé nú hafið. „Sé horft til sögunnar getur gosskeið staðið í tugi eða hundruð ára, þótt goshlé innan slíkra skeiða geti verið nokkurra áratuga löng. Á Reykjanesskaga eru sex skilgreind eldstöðvakerfi.“

Tekið er fram að sagan kenni að mörg skilgreind eldstöðvakerfi Reykjanesskagans virkist á gosskeiðum, þó ekki öll í einu. Frá því að núverandi atburðarás hófst hefur gosið í tveimur fyrrnefndu kerfunum. Sams konar færsla á virkni átti sér stað milli nærliggjandi eldstöðvakerfa á síðasta gosskeiði, en virknitímabil eldstöðvakerfa á Reykjanesskaga eru talin í áratugum í hvert sinn.

Þrátt fyrir að gosin hafi flest verið á landi bendir Veðurstofan á að ekki sé hægt að útiloka eldvirkni í sjó, einkum að hraun rynni til sjávar. Einu þekktu dæmin um eldgos með upptök í sjó við Reykjanesskaga eru út af Reykjanestá en eldgos á þeim slóðum myndi valda gjóskufalli og gæti haft áhrif á vatnsgæði og heilsufar.

Afleiðingar umbrota í öðrum kerfum á Reykjanesskaga geta orðið svipaðar og sést hefur í undangengnum atburðum að mati Veðurstofunnar, t.d. sprunguhreyfingar, hraungos, staðbundin sprengivirkni og gasmengun. Gætu þá þéttbýlissvæði, vatnslagnir, orkumannvirki og vegir orðið fyrir áhrifum. Áætlanir stjórnvalda, sveitarfélaga og fyrirtækja á svæðinu til framtíðar þurfa að taka mið af þessu, að því er segir í skýrslunni.

Þá er tekið fram að Veðurstofan leiði nú vinnu við gerð langtímaáhættumats fyrir Reykjanesskaga. Búist er við að verkinu verði að mestu lokið snemma árs 2026, en niðurstöður um einstök atriði gerð opinber fyrr, þegar þær liggja fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka