Kílómetragjald: „Mikilvægt að málið verði klárað fyrir þinglok“

Samkvæmt frumvarpinu er ætlunin að lögin taki gildi 1. janúar …
Samkvæmt frumvarpinu er ætlunin að lögin taki gildi 1. janúar næstkomandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra segir að kílómetragjald á ökutæki sé áframhald á kerfisbreytingu sem hófst í fyrra og sé mikilvæg forsenda fyrir fjárlögunum.

Óvissa ríkir um lögfestingu kílómetragjaldsins og í viðtali við Morgunblaðið í dag segir Njáll Trausti Friðbertsson, formaður fjárlaganefndar, að ekki séu miklar líkur á að frumvarp til laga um kílómetragjald á ökutæki verði samþykkt fyrir þinglok sem fyrirhuguð eru í næstu viku.

„Mér finnst mikilvægt að þetta mál verði klárað fyrir þinglok og ég vona að svo verði. Það eru mikilvægar forsendur fyrir fjárlög næsta árs og fjárlögum næstu ára,“ sagði Sigurður Ingi við mbl.is eftir fund ríkisstjórnarinnar í morgun.

Í frumvarpinu um kílómetragjald er meðal annars mælt fyrir um að lagt verði gjald á hvern ekinn kílómetra ökutækja, en gjaldið er breytilegt eftir þyngd þeirra. Lægsta gjaldið er 6,7 krónur. Samkvæmt frumvarpinu er ætlunin að lögin taki gildi 1. janúar næstkomandi.

Bíður nýs þings og nýrrar ríkisstjórnar

Fram kom í fréttum á RÚV í gærkvöld að Landhelgisgæslan hafi óskað eftir aukafjárveitingu upp á einn milljarð króna til að mæta halla sem er til kominn vegna viðgerðar á einni af þyrlum gæslunnar og að Frontex, landamærastofnun Evrópu, hafi sagt um samning við Landhelgisgæsluna um eftirlit með flóttafólki. Spurður út í málefni Landhelgisgæslunnar sagði Sigurður:

„Ég held að ég fari rétt með þá eru í fjáraukalagafrumvarpinu nokkur atriði sem er verið að skoða sem hafa verið til meðhöndlunar í þinginu en eins og oft hefur verið sagt að við þessar sérstöku aðstæður er ekki hægt að taka neinar nýjar stærri ákvarðanir. Það bíður einfaldlega nýs þings og nýrrar ríkisstjórnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert