Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) segir kjör kennara hafa batnað umfram það sem gerst hefur á almennum vinnumarkaði og nemur kjarabótin um 84% á níu ára tímabili eða á árunum 2014-2023.
Á sama tíma hafa launakjör sérfræðinga vaxið um 50% á almennum markaði að því er fram kemur í samantekt á vef SÍS undir yfirskriftinni: Jöfnun launa og kjara: Hvað hefur verið gert?
Ástæða innleggsins á vef SÍS er sagt vera viðbragð við fullyrðingum kennara að þeir hafi ekki notið bættra kjara í takt við samkomulag frá árinu 2016 þess efnis að laun og önnur kjör hjá hinu opinbera yrðu jöfnuð almenna markaðnum.
„Eðli starfa opinberra starfsmanna og starfa á almennum vinnumarkaði eru um margt ólík og einnig hvernig vinnumagn starfsfólks er mælt. Þá eru önnur kjör launafólks sömuleiðis ólík milli markaða. Verðgildi annarra kjara og réttinda sem kennarar njóta umfram sérfræðinga á almennum vinnumarkaði s.s. ríkari veikindaréttur, lengra orlof, launaður tími til símenntunar, launuð námsleyfi o.fl. má jafna til 10% til 15% launaauka, sem horfa verður til við samanburð launa og kjara á milli markaða,“ segir á vef SÍS.
Þá er vikið að því að árið 2023 hafi verið áfangasamkomulag við BSRB, BHM, og KÍ um skref í átt að jöfnun samhliða undirritun skammtímakjarasamninga.
Samkomulag náðist við BSRB og BHM fyrir þær starfsstéttir þar sem skýrar vísbendingar eru um „ómálefnalegan og kerfislægan launamun á milli markaða.“
Kennara sambandið hafi hins vegar sagt sig frá viðræðunum í janúar. Fram kemur að KÍ standi enn til boða að taka þátt í samkomulaginu.