Kvikusöfnun 80% af því sem var fyrir síðasta gos

Landris heldur áfram við Svartsengi.
Landris heldur áfram við Svartsengi. mbl.is/Árni Sæberg

Heildarrúmmál kviku undir Svartsengi er nú um það bil 80% af því sem safnaðist áður en fór að gjósa síðast við Sundhnúkagíga, eða 22. ágúst. Lítil skjálftavirkni hefur verið í Sundhnúkagígaröðinni síðan skjálftahrina reið yfir aðfararnótt mánudagsins í þessari viku.

Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands vegna stöðunnar á Reykjanesskaga er greint frá því að síðan skjálftahrinan reið yfir hafi eingöngu fimm smáskjálftar mælst. Þó sé líklegt að mikið hvassviðri síðustu daga hafi haft áhrif á getu jarðskjálftakerfisins til að nema allra smæstu skjálftana.

Landris undir Svartsengi heldur áfram og er nú 80% af því magni sem safnaðist áður en síðast fór að gjósa. Ef hraði kvikusöfnunar helst óbreyttur styttist í að kvikumagnið undir Svartsengi verði sambærilegt því sem hafði safnast þegar síðasta kvikuhlaup varð og eldgos hófst. Veðurstofan reiknar þó með að meira magn þurfi nú að safnast fyrir undir Svartsengi til að koma af stað næsta kvikuhlaupi.

Kvikusöfnun hefur nú náð 80% af því magni sem safnaðist …
Kvikusöfnun hefur nú náð 80% af því magni sem safnaðist saman fyrir síðasta gos. Veðurstofan spáir því að meira muni safnast saman núna áður en fer að gjósa.

Veðurstofan fjölgar myndavélum

Veðurstofan hefur einnig komið upp tveimur nýjum vefmyndavélum sem staðsettar eru við norður- og suðurenda umbrotasvæðisins. Önnur þeirra er á Litla-Skógfelli í norðri og hin á Húsafjalli í suðri. Stefnir Veðurstofan á að fjölga myndavélum frekar og setja upp tvær vefmyndavélar til viðbótar.

Þetta er gert til að geta vaktað betur mögulegar gosopnanir og hraunflæði ef til eldgoss kæmi, en heildarlengd þess svæðis á Sundhnúksgígaröðinni þar sem líklegt er að gossprungur opnist er um 9 km.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert