Lenda í háska í óskipulögðum jöklaferðum

Frá aðgerðum björgunarsveita á Breiðamerkurjökli.
Frá aðgerðum björgunarsveita á Breiðamerkurjökli. Ljósmynd/Landsbjörg

Dæmi eru um að ferðafólk á eigin vegum í óskipulögðum jöklaferðum á Íslandi lendi í háska og að slys hafi orðið. Gerðist það til að mynda við Blágnípujökul og í íshellum í Hrafntinnuskeri og Kverkjökli. Einnig hefur legið nærri slysum vegna jökulhlaupa í íshellum á austanverðum Breiðamerkurjökli.  

Þetta kemur fram í minnisblaði starfshóps sem var skipaður til að afla upplýsinga um banaslys sem varð í skipulagðri jöklaferð á Breiðamerkurjökli í ágúst og skoða öryggi í íshellaferðum almennt.

Skrá um slys og öryggisáætlanir

Atvikið á Breiðamerkurjökli var fyrsta banaslysið í skipulagðri jöklaferð á Íslandi.

Í tillögum starfshópsins að úrbótum kemur m.a. fram að haldin verði skrá um slys og óhöpp í ferðaþjónustu. 

Þá er lagt til að öryggisáætlun ferðaþjónustuaðila jöklaferða verði hluti af leyfisveitingaferli. Ferðaþjónustuaðilum hefur ekki verið skylt að leggja fram öryggisáætlanir heldur hefur Ferðamálastofa átt að sinna eftirliti með því að öryggisáætlanir séu til staðar og uppfærðar eins og þörf krefur.

Í tillögunum er einnig kveðið á um að auknar kröfur verði gerðar í samningum Vatnajökulsþjóðgarðs við ferðaþjónustuaðila um menntun og reynslu leiðsögumanna.

Kynntu skýrsluna í morgun

Starfshópurinn kallaði eftir skýrslum varðandi atvikið frá Ferðamálastofu og Vatnajökulsþjóðgarði og átti fundi með Veðurstofunni, Vatnajökulsþjóðgarði, Ferðamálastofu, Samtökum ferðaþjónustunnar, Hornafjarðarbæ, Mýrdalshreppi, Bláskógabyggð, Borgarbyggð, Ferðamálasamtökum Austur- Skaftafellssýslu og Félagi fjallaleiðsögumanna.

Samantekt hópsins var svo kynnt á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Í tillögum starfshópsins, sem í framhaldi þarfnast nánari útfærslu í samráði við haghafa, koma fram eftirfarandi ábendingar til úrbóta:

1. Öryggisáætlun ferðaþjónustuaðila jöklaferða verði hluti leyfisveitingaferils

2. Auknar kröfur verði gerðar í samningum Vatnajökulsþjóðgarðs við ferðaþjónustuaðila um menntun og reynslu leiðsögumanna

3. Sömu kröfur verði gerðar til ferðaþjónustuaðila á þjóðlendum og í þjóðgörðum með nýtingarsamningum við sveitarfélög

4. Menntun leiðsögumanna verði betur tryggð innan menntakerfisins og/eða með stuðningi við Félag fjallaleiðsögumanna

5. Unnið verði áhættumat á jöklum sem nýtt verði til að meta áhættu í skipulögðum jöklaferðum

6. Haldin verði skrá um slys og óhöpp í ferðaþjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka