Með á fjórða þúsund neysluskammta af metamfetamíni

Um var að ræða 342 grömm af metamfetamíni með 99% …
Um var að ræða 342 grömm af metamfetamíni með 99% styrkleika. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsréttur hefur staðfest 14 mánaða og 12 mánaða dóm yfir pari sem sakfellt var fyrir að hafa flutt til landsins 342,15 grömm af metamfetamíni með 99% styrkleika. Nægir þetta magn í allt að 3.421 neysluskammt.

Var framburður fólksins metinn mjög ótrúverðugur og skýringar þess ekki taldar ganga upp miðað við gögn málsins. Féllst Landsréttur því á rök ákæruvaldsins og staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem áður hafði dæmt fólkið í óskilorðsbundið fangelsi til 12 og 14 mánaða.

Falsað umboð

Parið, Erna Ósk Agnarsdóttir og Guðmundur Þór Ármannsson, voru fundin sek um stórfellt fíkniefnalagabrot, en þau neituðu bæði sök í málinu og vísuðu til þess að hafa sótt sendinguna á pósthús fyrir þriðja aðila, en það var kona sem þekkti til parsins. Hins vegar kom í ljós að Erna og Guðmundur höfðu í sameiningu falsað skriflegt umboð þess efnis að konan gæfi Ernu fullt og ótak­markað umboð til að taka við öll­um henn­ar bréf- og póst­send­ing­um. 

Guðmund­ur og Erna fóru sam­an í póstaf­greiðsluna, en ekki kom til þess að framvísa þurfti umboðinu, heldur fengu þau sendinguna afhenda án þess. Þau fóru svo heim á leið í strætisvagni og handtók lögreglan þau í kjölfarið og var þá Erna með umslagið með efnunum á sér.

Erna var enn frem­ur ákærð fyr­ir fíkni­efna­laga­brot með því að hafa haft í vörsl­um sín­um, á heim­ili sínu, 0,11 g af am­feta­míni, 0,28 g af tób­aks­blönduðu kanna­bis­efni, 4 stykki afA­bstr­al, 1 stykki afRi­votril og 90 stykki af­Ga­bapenstad.

Framburðurinn mjög ótrúverðugur

Framburður fólksins var sem fyrr segir talinn mjög ótrúverðugur og er meðal annars vísað til þess að konan hafi sagt að hún hafi ekki notað metamfetamín í yfir eitt ár. Engu að síður fannst á henni efni á kristalformi sem konan sagði vera íblöndunarefni sem hún hafði fengið við kaup efna fyrir ári síðan.

Sagði hún svo að hún hefði fundið efnin í notuðu veski sem hún var að selja á sölubás. Fyrir dómi sagði hún svo að hún hefði fundið efnin við tiltekt í skúrnum og hefði ætlað að gefa vini sínum efnin.

Þá fundust ljósmyndir á síma konunnar af metamfetamíni í kristalformi og í leitarsögu hennar mátti sjá hvernig leitað var að slíkum efnum og síðar að hún hafi verið á síðu þar sem hægt var að kaupa metamfetamín og að hún hafi verið á verslunarhluta síðunnar.

Gat ekki skýrt milljóna inngreiðslur

Einnig væri hún með lista á símanum með nöfnum og fjárhæðum yfir það hversu mikið fólk skuldaði sér. Sagði hún fyrir dómi að þetta væru gamlir listar og að hún hefði selt áður en ekki lengur. Fram kemur í dóminum að þær skýringar séu ekki í samræmi við gögn málsins, en nýlegir skuldalistar fundust á símanum auk þess sem samskipti hennar við kaupanda voru líka nýleg.

Þá liggi fyrir innborganir á reikning konunnar frá einstaklingum upp á 2,2 milljónir á 4 mánaða tímabili sem hún gat illa skýrt.

Taldi dómstóllinn einsýnt að skýringar fólksins á ástæðu þess að þau ákváðu að sækja póstsendingu, sem stíluð var á aðra konu, stæðust engan veginn og að þau hafi vitað hvað var í sendingunni.

Söluverðmæti 17-34 milljónir

Fram kom í dómi héraðsdóms að áætlað söluverðmæti efnanna hér á landi væri um 17-34 milljónir króna.

Í dómi Landsréttar er tekið fram að neysla metamfetamíns hafi alvarlega fylgikvilla í för með sér og að í samanburði við önnur fíkniefni sé metamfetamín á kristalformi meðal þeirra skaðlegustu. Þá nemi neysluskammtur 0,1 grammi til 0,5 grömmum og því sé um allt að 3.421 neysluskammt að ræða.

Var niðurstaða Landsréttar að staðfesta 14 mánaða dóm yfir Ernu og 12 mánaða dóm yfir Guðmundi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert