Skúli og stjórnendur WOW sýknaðir en 780 milljóna greiðslum rift

Skúli Mogensen, stofn­andi og for­stjóri WOW air og nú­ver­andi eig­andi …
Skúli Mogensen, stofn­andi og for­stjóri WOW air og nú­ver­andi eig­andi sjó­baðanna í Hvamms­vík, í dómsal í síðasta mánuði. mbl.is/Karítas

Skúli Mo­gensen, stofn­andi og fyrrverandi for­stjóri WOW air, og stjórnarmenn í WOW air hafa verið sýknuð af kröfum þrotabús WOW til greiðslu skaðabóta sem samsvara fjárhæð riftunarkrafna upp á hátt í tvo milljarða króna.

Hins vegar var greiðslum frá WOW til íslenska ríkisins, nokkurra erlendra fyrirtækja, flugvallarins í Toronto og Títans fjárfestingafélags, félags í eigu Skúla, upp á samtals sem nemur um 780 milljónum rift. Til viðbótar við það bætast dráttavextir yfir fimm ára tímabil.

Í tveimur riftunarmálunum var kröfu þrotabúsins vísað frá eða málinu vísað frá dómi. Átti það meðal annars um riftunarmál gegn breskum skattayfirvöldum.

Ellefu mál og mörg þúsund blaðsíðna málsgögn

Í stuttu máli er um að ræða ellefu rift­un­ar- og skaðabóta­mál­ sem þrotabúið höfðaði gegn stjórn­end­um WOW air og trygg­inga­fé­lög­um. Málið var  um­fangs­mikið og flókið og máls­gögn þess þúsund­ir blaðsíðna.

Farið var fram á riftun greiðslna  til kröfu­hafa, og að for­stjóri og/​eða stjórn­end­ur yrðu dæmd­ir til greiðslu skaðabóta sem sam­svara fjár­hæð rift­un­ar­inn­ar, þ.e.a.s. hátt í tveir millj­arðar. Skipta­stjór­ar þrota­bús­ins töldu greiðslur hafa verið gerðar á vafa­söm­um tíma í sögu fé­lags­ins og að kröfu­höf­um hefði verið mis­munað.

Stjórnarmönnunum sem var stefnt ásamt Skúla í málinu voru Liv Bergþórsdóttir, fyrrverandi stjórnarformaður og núverandi forstjóri Bioeffect, Helga Hlín Hákonardóttir og Davíð Másson. Voru þau öll í stjórn félagsins þegar WOW varð gjaldþrota. Þá var einnig tryggingafélögunum Eurocontrol, DUAL Corporate Risks Lim­ited, Li­berty Mutual Ins­urance Europe Lim­ited, Ev­erest Syndica­te 2786 at Lloyd’s og Ev­erest Syndica­te, Har­dy Syndica­te 382 at Lloyd’s og QBE UK Lim­ited stefnt í málinu.

Helga Hlín Há­kon­ar­dótt­ir, eig­andi og lögmaður hjá Strategíu, Liv Bergþórs­dótt­ir, …
Helga Hlín Há­kon­ar­dótt­ir, eig­andi og lögmaður hjá Strategíu, Liv Bergþórs­dótt­ir, for­stjóri Bi­oef­fect, og Skúli Mogensen, eig­anda sjó­baðanna í Hvamms­vík. mbl.is/Karítas

Horfa verður til aðstæðna og mikilvægis félagsins

Í dómunum er vísað til þess að bótaábyrgð verði aðeins felld á stjórn sé komist að þeirri niðurstöðu að tjóni hafi verið valdið af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.

Segir í dóminum að miðað við aðstæður og málsatvik í aðdraganda gjaldþrotsins verði að veita stjórninni nokkurt svigrúm í tilraunum sínum til að bjarga rekstri félagsins. Þá verði ekki horft fram hjá því að rekstur félagsins hafi verið metinn þjóðhagslega mikilvægur samkvæmt gögnum málsins.

Hæsta upphæðin frá ríkinu

Hæsta upphæðin sem rift var eru greiðslur til íslenska ríkisins, samtals upp á 273 milljónir auk vaxta. Er í þeim dómi vísað til þess að þegar WOW leitaði að hugsanlegum samningum við fjárfesta (m.a. Indigo partners) rétt fyrir gjaldþrotið hafi forsenda fyrir slíkum samningum og þannig áframhaldandi rekstri WOW verið að félagið væri áfram í rekstri.

Til að svo mætti verða var stjórn nauðsynlegt að grípa til aðgerða í rekstrinum og liður í því var að forgangsraða greiðslum með hlutrænum hætti þannig að bráðnauðsynlegar greiðslur, með tilliti til áframhaldandi reksturs nytu forgangs. Það leiddi til þess að greiðslur til íslenska ríkisins, og annarra félaga sem tekist er á í málunum öllum, voru framkvæmdar. Að öðrum kosti hefði rekstur félagsins stöðvast.

Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri þrotabús WOW air við komuna í …
Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri þrotabús WOW air við komuna í dómsal í síðasta mánuði. mbl.is/Karítas

Forgangsröðun greiðslna réttlætanleg

Því telur dómurinn að ekki hafi verið sýnt fram á að sá tími sem stjórn hafði til að snúa rekstri félagsins við teldist hafa runnið sitt skeið á enda áður en greiðslurnar voru inntar af hendi og óskað var gjaldþrotaskiptum, þannig að skaðabótaábyrgð varði.

Telur dómurinn að vegna þessa, þó að aðrar greiðslur hafi á sama tíma verið í vanskilum, verði ekki fallist á að í slíkri forgangsröðun greiðslna felist saknæm eða ólögmæt háttsemi af hálfu stjórnenda.

Greiðslunum engu að síður rift

Hins vegar er í dóminum vísað til þess að íslenska ríkið og aðrir þeir sem greiðslur fengu á þessum tíma hafi haft hag af hinum riftanlegu ráðstöfunum í skilningi laga og beri því að rifta greiðslunum.

Félögin sem fengu greiðslur frá WOW og hefur nú verið rift með dómi héraðsdóms eru:

  • Jin Shan 20 Ireland company – 601.614 USD, eða sem nemur 128,5 milljónum króna.
  • Íslenska ríkið – 272.653.082 krónur.
  • RRPF Engine Leasing Ltd – 310.441 USD, eða sem nemur 44,3 milljónum króna
  • Saint Lawrence Aviation Leasing Ltd – 384.424 USD, eða sem nemur 54,8 milljónum.
  • Air Lease Corporation – 600.000 USD og 300.000 EUR, samtals sem nemur 131,8 milljónum króna.
  • Greater Toronto Airports Authority – 394.716 CAD, eða sem nemur um 40,6 milljónum króna.
  • Eurocontrol – 1.458 EUR, eða sem nemur um 225 þúsund króna.
  • Títan fjárfestingafélag – 107.640.000 krónum.

Til viðbótar við að greiðslunum sé rift og félögin þurfa að greiða upphaflega upphæð þurfa þau að greiða vexti yfir rúmlega 5 ára tímabil.

Títan fjárfestingafélag er félag í eigu Skúla.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka