Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra segir að stjórnvöld muni ekki stíga inn í kjaradeilu kennara og lækna til að höggva á hnútinn í kjaradeilu þeirra við ríki og sveitarfélög.
Hluti kennara í Kennarasambandi Íslands er í verkfalli, en verkföll hófust í níu skólum í lok október. Verkfallsaðgerðir hafa verið boðaðar í þrettán skólum en ekki hefur verið útilokað að fleiri bætist við náist samningar ekki fljótlega. Læknar hafa síðan boðað verkfall frá og með 25. nóvember næstkomandi.
„Þetta eru aðilar sem eru að semja og ég er vongóður um að það séu ákveðin tækifæri fólgin í báðum þessum samningum sem myndu felast í einhverjum breytingum sem væru góðar fyrir viðkomandi stéttir,“ segir Sigurður Ingi við mbl.is.
Hann segir að um leið sé mikilvægt að átta sig á því að rúmlega 86 prósent allra á vinnumarkaði séu búnir að semja um ákveðna leið sem eru langtímasamningar á hóflegum kjörum sem eigi að tryggja stöðugleika í verðlagi og verðbólgu til næstu ára.
„Ég held að það sé mjög mikilvægt að þeir sem sitja við samningaborðið geri sér grein fyrir bæði þeirri ábyrgð og mikilvægi þess að allir taki þátt í því að ná þeim árangri.“
Spurður hvort honum finnist kennarar og læknar fara fram með óhóflegar kröfur segir hann:
„Nú þekki ég ekki nákvæmlega þeirra kröfur en ég vona bara að allir aðilar við borðið geri sér grein fyrir mikilvægi þessa máls og ábyrgð sinni.“