Taka þarf ákvarðanir um framtíð Grindavíkurbæjar

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. Skýrslan um stöðuna og framtíðarhorfur í Grindavík …
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. Skýrslan um stöðuna og framtíðarhorfur í Grindavík og Reykjanesskaga var unnin af ráðuneytinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á komandi misserum þarf að taka ákvarðanir um framtíð sveitarfélagsins Grindavíkurbæjar enda stefnir bæjarsjóður að óbreyttu í þrot. Í dag er raunverulegur íbúafjöldi í Grindavík ef til vill nálægt 100 manns, en með skráð lögheimili í bænum eru 1.600 manns.

Rekstur sveitarfélagsins á næstunni byggir því á forsendum um ranga skráningu lögheimilis, en slíkt getur haft í för með sér ýmis konar vandkvæði og skapar ástand þar sem aukin hætta er á að lögbundin þjónusta verði ekki veitt íbúum.

Styttist í næstu sveitarstjórnarkosningar

Næstu sveitarstjórnarkosningar verða haldnar vorið 2026, eða eftir um eitt og hálft ár og nauðsynlegt er að taka tímanlega ákvarðanir um næstu skref fyrir þær.

Þetta er meðal þeirra niðurstaðna sem kynntar eru í nýrri skýrslu forsætisráðherra um helstu verkefni stjórnvalda og mat á framtíðarhorfum vegna jarðhræringa og eldsumbrota á Reykjanesskaga. Hefur skýrslunni verið dreift á Alþingi, en á sunnudaginn er ár liðið frá því að Grindavík var rýmd í tengslum við miklar náttúruhamfarir sem áttu eftir að ríða yfir bæinn.

Taka þarf ákvörðun á næstu misserum um framtíð sveitarfélagsins.
Taka þarf ákvörðun á næstu misserum um framtíð sveitarfélagsins. mbl.is/Árni Sæberg

Við vinnslu skýrslunnar var upplýsinga aflað frá öllum ráðuneytum auk Grindavíkurnefndar, Veðurstofunni, embætti landlæknis, almannavörnum, Náttúruhamfaratryggingu Íslands og Fasteignafélaginu Þórkötlu. Skýrslunni fylgja einnig álit og samantektir frá Veðurstofunni, Jarðvísindastofnun og Félagsvísindastofnun.

Geta Grindavíkurbæjar verulega skert

Í skýrslunni kemur fram að ein af meginskyldum sveitarfélaga sé að veita nauðsynlega þjónustu, svo sem heilbrigðis-, félags- og skólaþjónustu og að tryggja velferð barna. Geta Grindavíkurbæjar til að veita þjónustu af þessu tagi er verulega skert í ljósi aðstæðna. Því er hætt við að íbúar sem eiga rétt á og þurfa þjónustu sem er á verksviði sveitarfélagsins fái ekki nauðsynlega þjónustu

Tekið er fram að vísbendingar séu um að þetta komi illa niður á börnum, eldra fólki og einstaklingum í viðkvæmri stöðu.

Aðskilja þarf framtíð sveitarfélagsins frá endurreisn byggðarinnar

Í skýrslunni er bent á að aðskilja þurfi til skamms tíma þau tvö úrlausnarefni sem eru endurreisn byggðarinnar í Grindavík og framtíð sveitarfélagsins Grindavíkurbæjar. Til lengri tíma fari þessi úrlausnarefni þó saman.

Segir þar að stórar ákvarðanir um endurreisn byggðarinnar í Grindavík þurfi ekki að taka á næstu misserum. Þær ákvarðanir verði einnig að mestu leyti teknar af framtíðaríbúum, sem nú er óvist hverjir verða.

Landris heldur áfram við Svartsengi og viðbúið er að áframhaldandi …
Landris heldur áfram við Svartsengi og viðbúið er að áframhaldandi jarðhræringar og eldsumbrot skapi áfram hættu þar á næstum vikum og mánuðum hið minnsta. mbl.is/Árni Sæberg

Meðan óvissan er enn mikil er óskynsamlegt að fara í stórtæka endurreisn

„Vandi endurreisnarstarfsins, og ákvarðana um það, felst ekki síst í því að mikil óvissa er enn fyrir hendi um framvindu náttúruhamfaranna í næsta nágrenni bæjarins. Landris heldur áfram við Svartsengi og viðbúið er að áframhaldandi jarðhræringar og eldsumbrot skapi áfram hættu þar á næstum vikum og mánuðum hið minnsta. Ekki er hægt að segja fyrir um hvenær þessu endurtekna hættuástandi við Grindavík lýkur. Meðan svo er, er óskynsamlegt að ráðast í stórtækt endurreisnarstarf,“ segir í skýrslunni.

Þá segir að flest bendi til að hægt verði að ná öflugri viðspyrnu ef Grindavíkurbær verði sameinaður við önnur sveitarfélög, eitt eða fleiri, til að tryggja fjárhagslega sjálfbærni. „Til lengri tíma hangir framtíð sveitarfélagsins og farsæl endurreisn byggðarinnar þannig saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert