„Það var alveg hræðilegt að sjá þetta koma yfir sig. Við vorum ekki nema tveir sundlaugargestir og það var heppilegt að það var enginn þarna nema ég og Níels, sem býr hérna. Það voru engin börn,“ segir Kristjana Sigríður Vagnsdóttir, 93 ára íbúi á Þingeyri sem stödd var í sundlaug bæjarfélagsins um áttaleytið þegar gluggar gáfu sig í óveðri í gærkvöldi.
Einnig voru tveir starfsmenn á svæðinu.
Gluggarnir sem gáfu sig voru í nokkurra metra hæð og komu yfir Kristjönu og sessunauta hennar þegar þau sátu við borð fyrir neðan gluggana. Til allrar hamingju flugu gluggarnir alfarið yfir þau og lentu á sundlaugarbakkanum fyrir framan þau. Varð því engum meint af.
„Gluggarúðan brotnaði á sundlaugarbarminum. Við fengum ekkert glerbrot í okkur. Það hefði verið svakalegt ef það hefði farið á okkur. Algjört blóðbað,“ segir Kristjana en hlær við þegar hún nefnir þetta.
Kristjana hefur búið á Þingeyri í um 20 ár og er Vestfirðingur í húð og hár. Að sögn hennar fer hún í sund á hverjum degi og fer leiðar sinnar á bíl sínum. Laugin er lokuð á meðan viðgerðum stendur og finnst Kristjönu það slæmt því heimsókn þangað er hluti af daglegri rútínu hennar.
„Kvöldið áður þá vorum við og sundlaugarvörðurinn, við Sigga Stína, að drekka kaffi við þetta sama borð og við sátum við. Þá leit ég svona upp undir gluggann og sagði við Siggu Stínu að það færi að styttast í að glugginn myndi gefa sig því það rigndi slyddudrullu yfir okkur við borðið þar sem við sátum. En manni datt svo ekkert í hug að þetta myndi gerast daginn eftir,“ segir Kristjana glaðbeitt.
Björgunarsveitarmenn úr björgunarsveitinni Dýra komu aðvífandi skömmu síðar. Aðstoðuðu þeir Kristjönu út í bíl og var hún komin heim um tíu mínútum síðar.
„Þetta var svakalegt skot þegar þetta gerðist. Mikill hávaði. Svo kom annað skot þegar björgunarsveitarmennirnir voru að hjálpa mér út í bíl. Þetta var hræðileg stund en hún er nú að hverfa úr huga mér núna. Nú finnst mér bara mikilvægast að laugin geti opnað sem fyrst aftur. Þetta er félagsmiðstöðin okkar,“ segir Kristjana.