Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, hefur ákveðið sækja um leyfi til að áfrýja til Hæstaréttar máli sem snýr að skrifum miðilsins Mannlífs upp úr minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu.
Þessu greinir hann frá á Facebook.
Landsréttur hefur staðfest dóma Héraðsdóms Reykjaness yfir Reyni og útgáfufélaginu Sólartúni ehf. vegna skrifanna.
Reynir segir málið þannig vaxið að standi dómur í málinu gjörbreyti það stöðu fjölmiðla og þrengi að þeim varðandi tilvitnanir.
„Það er eindregin skoðun mín að þarna hafi verið felldur dómur án þess að ígrunda afleiðingarnar og með ólíkindum að láta þann dóm standa,“ skrifar Reynir.
„Þetta mál felur í sér algjört grundvallaratriði sem óhaggað mun kalla vandræði yfir fjölmiðla og fólk. Þess vegna mun lögmaður minn, Gunnar Ingi Jóhannsson, sækja um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar,“ segir hann jafnframt.
Árvakur hf. er útgefandi Morgunblaðsins, mbl.is og K100.