„Þótt ég sé borgarbarn hef ég alltaf borið sterkar taugar til íslensks landbúnaðar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.
Í gær gerði hún sér erindi austur fyrir fjall og tók þar á móti gjöf sem hún fékk á 50 ára afmæli sínu í fyrra.
Þar og þá flutti Guðni Ágústsson fyrrverandi landbúnaðarráðherra ávarp og hafði á orði að gefa Lilju lamb á fæti – gimbur sem hún vitjaði nú um.
Gimbrin góða, sem er af kyni forystufjár, er svarthöfðótt að lit og kemur úr fjárstofni Skúla Ragnarssonar á Ytra-Álandi í Þistilfirði.
Á dögunum fór Helgi Eggertsson, bóndi á Kjarri í Ölfusi, þangað og keypti nokkur líflömb sem hann svo flutti suður.
Helgi mun og hafa gimbrina á fóðrum fyrir ráðherrann uns annað verður ákveðið. Og nafnið er komið; gimbrin heitir Hrifla, sem vísar til bæjarins norður í Bárðardal þaðan sem Jónas Jónsson, formaður Framsóknarflokksins og einn helsti áhrifamaður í íslensku samfélagi á fyrri hluta 20. aldar, var ættaður.
„Sauðfjárbúskapur á Íslandi er ekki bara matvælaframleiðsla, heldur líka menning og saga. Þeir málaflokkar heyra undir Lilju í ríkisstjórn og því er vel við hæfi að hún sé orðin sauðfjáreigandi,“ sagði Guðni Ágústsson við afhendingu gjafarinnar góðu í gær. Þar var viðstaddur Helgi í Kjarri, bæ sem er skammt frá Ingólfsfjalli.
„Þróun og áherslur í landbúnaði eru spennandi. Sérstaklega hefur mér fundist gaman að sjá hvernig hefðbundinn búskapur og ferðaþjónusta vinna vel saman,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra og fjáreigandi, við Morgunblaðið.