Reykjavíkurborg hefur engin áform um að setja upp öryggismyndavélar í Grafarvogi. Þetta upplýsir Alexandra Briem, formaður stafræns ráðs borgarinnar, í bréfi til íbúaráðs Grafarvogs.
Á fundi sínum 3. júní sl. lagði íbúaráðið fram bókun þar sem fram kemur að í kosningu á meðal íbúa í Grafarvogi í Hverfinu mínu árið 2018 lenti „rafræn vöktun“ í öðru sæti yfir þau verkefni sem íbúarnir vildu að ráðist yrði í.
Þá hafði áður verið búið að senda inn þessa tillögu í samkeppnina og hún hlotið brautargengi og grænt ljós hjá borginni.
„En síðan má segja að ekkert hafi gerst þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir, aðeins sagt að málið væri í ferli. Íbúaráð Grafarvogs lýsir yfir ánægju með tilraunir formanns ráðsins til að þrýsta á viðeigandi aðila innan borgarkerfisins til að komið verði á kerfi öryggismyndavéla í Grafarvogi. Brýnt er að þessu máli sé haldið á lofti og það komist í verk að net öryggismyndavéla verði sett upp í hverfinu.“
Frekari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag.