Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula viðvörun vegna veðurs á norðanverðu Snæfellsnesi. Spáð er sunnan stormi, 18-25 m/s, með snörpum vindhviðum.
Gildir viðvörunin frá klukkan 6 í morgun til klukkan 11 en þá er ætlað að lægi á þessum slóðum.
Annars staðar á landinu verður fremur rólegt veður í dag. Á Suðausturlandi og Austfjörðum verður rigning eða súld. Úrkomulítið í öðrum landshlutum. Hiti á bilinu 5 til 13 stig.
„Kringum hádegi á morgun, sunnudag, gengur svo í vestan og síðar suðvestan 10-18 m/s með skúrum, en þá styttir smám saman upp á Austurlandi. Heldur kólnandi,“ að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar.