Atkvæðagreiðsla stendur nú yfir hjá félagsmönnum verkalýðsfélagsins Hlífar sem starfa á leikskólum í Hafnarfirði um verkfallsboðun í leikskólum bæjarins. Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ segir að atkvæðagreiðslan vaki undrun.
Segir í tilkynningunni að Hafnarfjarðarbær hafi á undanförnum árum umbylt hafnfirsku leikskólastarfi og starfsumhverfi þeirra.
„Sveitarfélagið hækkaði laun ófaglærðs starfshóps umfram almenna kjarasamninga frá og með febrúar 2023. Það greiðir í dag fimm launaflokkum hærra en almennir samningar um störf á leikskólum. Auk þess greiðir sveitarfélagið fimm óunna yfirvinnutíma. Það kemur því mjög á óvart, í ljósi þess ábata sem starfsfólk leikskóla bæjarins nýtur umfram almenna kjarasamninga, að kjörstjórn Verkalýðsfélagsins Hlífar standi nú fyrir atkvæðagreiðslu um vinnustöðvun alls félagsfólks sem starfar á leikskólum Hafnarfjarðarbæjar,“ segir í tilkynningu bæjarins.
Hlíf hefur tjáð sig með tilkynningu á vef sínum þar sem verkalýðsfélagið tekur undir það að leikskólastarfi og starfsumhverfi hafi verið umbylt á síðustu árum.
Félagið segir það einnig rétt að laun almenns starfsfólks í leikskólum séu almennt hærri í Hafnarfirði en í flestum öðrum sveitarfélögum eftir umbyltinguna, en að deilan snúist hins vegar ekki um laun.
„Hún snýst um kröfuna um undirbúningstíma. Eftir umbyltinguna eru gerðar mun meiri kröfur til almenns starfsfólks en áður, hvað varðar faglegt starf með börnum og ábyrgð á börnum. Við gerum kröfu um að fólkið okkar sem sinnir faglegu starfi, fái tækifæri til að undirbúa sig eins og aðrir sem sinna faglegu starfi í leikskólum,“ segir í tilkynningu Hlífar.
Þá er þess einnig krafist að þegar ekki takist að sinna undirbúningi innan dagvinnumarka fái starfsfólk tækifæri til að sinna undirbúningi í yfirvinnu og fái greitt samkvæmt því.
Formaður Hlífar, Eyþór Árnason, segir í samtali við mbl.is að í síðasta kjarasamningi félagsins við bæinn hafi það verið þannig að ef fólk næði ekki undirbúningi fyrir faglegt starf hafi undirbúningstíminn fallið niður.
„Það er það sem að við erum að reyna að koma í veg fyrir þ.e.a.s. að undirbúningstíminn leki ekki bara út,“ segir Eyþór og heldur áfram:
„Hafnarfjarðabær verður eiginlega að standa sig betur í mönnun þannig að okkar fólk, sem er í raun og veru að sinna faglegu starfi, fái sinn undurbúning og sá undirbúningur hreinlega detti ekki niður dauður ef að manneklan er slík að okkar fólk þ.e.a.s. ófaglært starfsfólk komist ekki í undirbúning.“
Deilan snúist því ekki um laun, heldur um kröfu um undirbúningstíma.
„Við gerum kröfu um fjóra [klukkutíma] á viku en það er samningsatriði. Tvo til fjóra á viku. Að okkar fólk, vegna þess að það sinnir í sjálfu sér faglegu starfi, fái tækifæri til að undirbúa sig.“
Hann segir málið hafa staðið yfir í eitt og hálft ár og að grunnurinn að deilunni hafi byrjað þegar Hafnarfjarðarbær breytti einhliða starfsheiti og starfslýsingu ófaglærðs starfsfólks.
„Það fer úr því að vera leiðbeinendur í það að vera leikskóla- og frístundaliði og þá breyta þeir starfslýsingunni og bæta inn í hana. Hún er mun víðtækari heldur en t.d. hjá öðrum sveitarfélögum.“
Atkvæðagreiðslan hófst á miðvikudag og lýkur á þriðjudag. Eyþór segir að um sé að ræða í kringum 315 félagsmenn og að verkfallið muni ná til 17 leikskóla í bænum fari svo að kosið verði á um það.
Fari svo að kosið verði á um verkfallsaðgerðir munu þær hefjast 21. nóvember í sumum leikskólum en 25. og 27. nóvember í öðrum og verða störf lögð niður í sólarhring.
Slíkar aðgerðir hefjast svo aftur nokkrum dögum síðar, 2. desember í sumum leikskólum og 4. desember í öðrum og störf aftur lögð niður í sólarhring.
Verði samningar ekki búnir að nást munu ótímabundin verkföll hefjast 9. desember.