Slökkvilið Vesturbyggðar var kallað út í gærnótt eftir að gat kom á bamba á iðnaðarsvæði á Bíldudal með þeim afleiðingum að þúsund lítrar af maurasýru láku út.
Kallaður var út starfskraftur frá Patreksfirði, Bíldudal og Tálknafirði og tók aðgerð slökkviliðsins um fjóra tíma að sögn slökkviliðsstjóra Vesturbyggðar, Davíðs Rúnars Gunnarssonar.
„Það er þó nokkuð notað maurasýru hérna á svæðinu. Maurasýra er sterk sýra sem að étur upp hitt og þetta þannig að ef þú setur þetta t.d. á föt þá brennir þetta sig í gegnum bæði fötin og svo húðina,“ segir Davíð í samtali við mbl.is og nefnir að gufur af sýrunni séu þá einnig sterkar og geti ert augu og brennt öndunarveg.
Hann segir sýruna vera notaða bæði í landbúnaði og ýmiss konar iðnaði.
Var þetta mikil aðgerð?
„Já, þetta er mjög hættuleg sýra. Þetta voru sum sé þrjár stöðvar, Patreksfjörður, Bíldudalur og Tálknafjörður sem komu.“
Segir slökkviliðsstjórinn að gat hafi komið á bambann þegar verið var að afferma bíl en að starfsmenn hafi náð að forða sér frá slettum og voru útskrifaðir af lækni mjög fljótlega.
„Við komum á vettvang og reynum þá að taka upp það sem er eftir. En aftur á móti er jarðvegurinn þarna, það er malarjarðvegur og þetta er náttúrulega eyri þannig það liggur mikið niður. Við notum hins vegar kalk til þess að hlutleysa sýruna. Ef þú blandar því í réttum hlutföllum saman þá færðu út hlutlausan vökva.“
Þá segir Davíð að einnig hafi verið notast við vatn til þess að þrífa svæðið og hlutleysa.
Eru miklar skemmdir?
„Nei, þetta í raun og veru skemmir ekki þannig séð út frá sér. Það væri meira að lífríkið væri í hættu en þar sem að þetta er bæði iðnaðarsvæði og malarsvæði þá lekur þetta niður í jörðina og svo sem enginn gróður í kring þannig séð.“
Þá upplýsir hann að aðgerðin hafi tekið um fjóra tíma en að allt sé komið í eðlilegt stand á ný.