„Það voru eldingar og þrumur allt í kringum okkur og nánast enginn tímamismunur sem bendir til að maður sé þá ansi nálægt. Maður átti það til að hrökkva aðeins við þegar allt í einu sló niður eldingu aftan við mann, en þó að það væri mjög langt frá þá var hvellurinn slíkur að maður upplifði þetta við hælana á sér.“
Þannig lýsir Halldór Kr. Jónsson, flugmaður og áhugaljósmyndari, upplifun sinni af því að elta þrumuveður og skýstróka í Bandaríkjunum í sumar.
Hann var þarna í tíu daga og segir sjónarspilið hafa orðið magnaðra með hverjum deginum sem leið og alltaf færðu þeir sig nær og nær storminum.
„Þetta var ansi mikið rok og rigning sem náði hápunkti lokadaginn. Þá fór Mike [leiðsögumaðurinn og vinur Halldórs] með okkur fram fyrir veðrið og lét það koma að okkur. Það byrjaði að myndast skýstrókur og við héldum að nú kæmi það, en hann dó út áður en hann náði hámarki.“
Það var þarna sem nýju sólgleraugun hans Halldórs fuku út á miðjan akur og enginn tími gafst til að leita að þeim. Þeir lentu raunar í hremmingum á leiðinni til baka. „Mike, sem var á fremri bílnum, komst yfir lestarteina og út á þjóðveginn en við á aftari bílnum urðum innlyksa. Búið var að loka teinunum vegna þess að lest var að koma. Þetta var smá örvænting en við fundum á endanum glufu og komumst yfir teinana. Þetta virkaði heillangur tími en var samt kannski ekki nema fimm eða sex mínútur. Á meðan vorum við eins og mýs í búri. Fastir. Það var mikill léttir að komast út.“
Nánar er rætt við Halldór um þessa ævintýraferð í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.