Eitt barn liggur á gjörgæslu vegna E. coli-sýkingar sem kom upp á leikskólanum Mánagarði fyrir rúmum þremur vikum.
Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum liggja tvö börn til viðbótar einnig á spítala vegna sýkingarinnar, en þó ekki á gjörgæslu.
Á þriðjudag lágu tíu börn inni á Barnaspítala Hringsins vegna sýkingarinnar, þar af eitt á gjörgæslu og var það barn einnig í öndunarvél.
E. coli-smitið hefur verið rakið til blandaðs nautgripa- og kindahakks sem börnin fengu í matinn á leikskólanum þann 17. október síðastliðinn. Var það niðurstaða rannsóknar að meðhöndlun og eldun þess hefði ekki verið með fullnægjandi hætti.