Veðurstofan varar við snörpum vindhviðum á norðanverðu Snæfellsnesi í nótt og í fyrramálið.
Spáð er sunnan 18-25 m/s á norðanverðu Snæfellsnesi með snörpum vindhviðum en mun hægari vindur annars staðar á svæðinu.
Veðurfræðingur á vakt á Veðurstofunni segir aðstæðurnar varasamar ökutækjum sem taka á sig mikinn vind og vindurinn á norðanverðu Nesinu sé þvert á suma vegina þar. Hviðurnar gætu farið yfir 35 metra á sekúndu.
„Í sunnan-og suðaustanáttum verður byljótt á norðanverðu Snæfellsnesi og þetta er klassískt að því leytinu til. Þetta er til dæmis í Grundarfirði og Kolgrafarfirði. En þetta gæti orðið það leiðinlegt að rétt þykir að vera með gula viðvörun.“
Ráðlegt er að vara erlenda ferðamenn við slíkum aðstæðum sem ef til vill fylgjast ekki jafn vel með veðurspám og heimamenn.
Líklegt er að veðrið gangi niður um og eftir hádegi á morgun, laugardag.