Um 100 þúsund bíleigendur hafa nú fengið tölvupóst frá Skattinum þar sem þeim er tilkynnt að opnað hafi verið fyrir skráningu kílómetrastöðu bensín- og dísilbíla. Alls munu 270 þúsund bíleigendur fá slíka sendingu.
Í bréfinu segir að umráðamenn bensín- og dísilbíla í flokki fólksbifreiða og sendibifreiða geti nú skráð kílómetrastöðu bíla sinna og rakið hvernig staðið skuli að því.
Margir hafa furðað sig á að Skatturinn skuli ætlað að setja af stað þessa vinnu áður en lögin svo mikið sem eru orðin til, hvað þá að þau hafi tekið gildi.
Í ofanálag er svo óvissa um hvort frumvarp um kílómetragjald verði samþykkt fyrir komandi kosningar eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær.
Í svari við fyrirspurn blaðsins til Skattsins kemur fram að heimild til þess sé þegar fyrir hendi. Segir að tveimur nýjum ákvæðum hafi til bráðabirgða verið bætt við lög nr. 101/2023 um kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða, þ. á m. bráðabirgðaákvæði VII, en 1. mgr. þess hljóðar svo: „Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. skulu eigendur og umráðamenn bifreiða sem falla undir 1. gr. laga um bifreiðagjald, nr. 39/1988, og eru ekki gjaldskyldar samkvæmt lögum þessum skrá stöðu akstursmælis rafrænt á tímabilinu 1. október til og með 31. desember 2024, sbr. 8. gr.“
Fram kemur í svari Skattsins að því sé ljóst að þegar sé „fyrir hendi skylda til skráningar á stöðu akstursmælis skv. gildandi lögum.
Í ljósi leiðbeiningarskyldu skattyfirvalda þykir rétt að vekja athygli eigenda og umráðamanna ökutækja á þessari lagaskyldu því ætla má að vitneskja um hana sé ekki almenn enda hefur lítið verið fjallað um hana opinberlega frá birtingu laganna.“