Beint: Grindvíkingar horfa um öxl á liðið ár

Grindavíkurkirkja stendur enn, óskemmd að því er virðist, og sóknin …
Grindavíkurkirkja stendur enn, óskemmd að því er virðist, og sóknin sjálf er enn til. Fyrsta messan frá því að hamfarirnar dundu yfir var þar haldin síðasta sunnudag. Morgunblaðið/Eggert

Grindvíkingar safnast saman í kirkju bæjarins í kvöld til að minnast þess að ár sé liðið frá hinum örlagaríka föstudegi hinn 10. nóvember 2023, þegar bærinn var rýmdur vegna náttúruhamfara í fyrsta sinn og líf heimamanna breyttust.

Samverustundin hefst kl. 20.30 þar og mun Halla Tómadóttir forseti m.a. flytja kveðju til Grindvíkinga.

Auk hennar flytja ávörp þau Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar, Séra Elínborg Gísladóttir sóknarprestur og Ólafur Ólafsson, fyrirliði meistaraflokks karla í körfuknattleik.

Kirkjukór Grindavíkurkirkju ásamt Kristjáni Hrannari Pálssyni organista munu þá einnig flytja létta tónlist.

Geithafur í ljósum

Þá verða ljós tendruð á „Ljósi vonar“, ljósaverki sem sett hefur verið upp við Kvikuna, menningarhús Grindvíkinga.

Verkið sýnir geithafurinn úr bæjarmerki Grindavíkur. Í tilkynningu á vef Grindavíkurbæjar kemur fram hugmyndin að baki verksins sé að geithafurinn eigi að endurspegla þá bjartsýni og seiglu sem Grindvíkingar hafi ávallt sýnt, jafnvel á erfiðum tímum. Verkið sé því tákn samfélagsins í Grindavík í fortíð, nútíð og framtíð.

Ljósaverkið mun fyrst um sinn standa við Kvikuna, menningarhús Grindvíkinga, en áætlað er að finna verkinu varanlegan stað í framtíðinni. Verkið er um fjögurra metra hátt og lýst upp með um 2.200 LED-ljósum. Verkið var hannað var í samstarfi Grindavíkurbæjar, MK-illuminatium og Garðlistar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert