Ferðamenn í vanda: Rötuðu ekki til baka

Frá aðgerðum í kvöld.
Frá aðgerðum í kvöld. Ljósmynd/Landsbjörg

Upp úr klukkan 18 í kvöld voru björgunarsveitirnar Hérað og Jökull kallaðar út vegna ferðamanna sem voru villtir í námunda við Kirkjufoss í Fljótsdal.

Auk þess var drónahópur frá Ísólfi á Seyðisfirði kallaður út vegna þessarar leitar, að því er segir í tilkynningu frá Landsbjörg.

Fram kemur, að fólkið hafi haft samband við Neyðarlínu vegna þess að þau voru orðin villt og köld.

Ljósmynd/Landsbjörg

Samkvæmt upplýsingum frá ferðamönnunum var að skilja að þau hefðu gengið frá bóndabænum Egilsstöðum í Fljótsdal að Kirkjufossi og höfðu verið á göngu í nokkra klukkutíma en rötuðu ekki til baka.

Notuðu dróna

Björgunarsveitir notuðust við dróna til að fara hratt yfir leitarsvæðið, ásamt því að björgunarfólk fór frá Egilsstöðum og skálanum í Laugarfelli, að því er Landsbjörg greinir frá. 

Fólkið fannst fljótlega á gönguleiðinni, ekki langt frá skálanum í Laugarfelli. Þá kom í ljós að þau höfðu gengið þaðan og bíll þeirra var þar.

Þau voru aðstoðuð aftur inn í Laugarfell og björgunarsveitir héldu heim á leið.

Aðgerðum lauk nú á tíunda tímanum í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert