„Það liggur í augum uppi að launahækkun um 100 þúsund krónur hjá einstaklingi sem er með 500 þúsund krónur í laun er hlutfallslega meiri en hjá einstaklingi sem er með 700 þúsund krónur í laun og fær sömu hækkun,“ segir í tilkynningu á vef Kennarasambands Íslands.
Var tilkynningin birt á vef sambandsins 8. nóvember, sama dag og Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) vakti athygli á því að heildarlaun sérfræðinga á almennum markaði hefðu hækkað minna hlutfallslega frá árinu 2014 til ársins 2023 en heildarlaun kennara.
Í tilkynningu Kennarasambandsins segir að það eigi sér eðlilegar skýringar og ber þá helst að nefna að í undanförnum kjarasamningum hafi verið samið um krónutöluhækkanir launa.
Þá segir Kennarasambandið kjarna málsins vera launamun hópanna.
„Heildarlaun sérfræðinga á almennum markaði voru að meðaltali rúmlega 1,1 milljón krónur á mánuði í fyrra, eins og haft er eftir hagfræðingi Sambandsins í fréttum. Heildarlaun sérfræðinga í fræðslustarfsemi (kennara) voru að meðaltali um 840 þúsund krónur á sama tíma, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands.“
Einnig segir Kennarasambandið vísun hagfræðings SÍS til heildarlauna vera sérstaka þar sem ekki sé samið um þau í kjarasamningum kennara. Yfirleitt hafi verið horft til reglulegra launa við kjarasamningaborðið.
„Þau voru að jafnaði um 725 þúsund krónur hjá sérfræðingum í fræðslustarfsemi á árinu 2023 og að meðaltali 1.083 þúsund krónur hjá sérfræðingum á almennum markaði, svo aftur sé vitnað í tölur frá Hagstofu Íslands.“
Segir í tilkynningunni að verkefni viðræðunefndar KÍ, samninganefndar sveitarfélaga og samninganefndar ríkisins sé að ljúka við gerð kjarasamnings og, eins og reglulega hafi komið fram, snúist meginmarkmið allra aðildarfélaga KÍ um að staðið verði við gerða samninga og laun sérfræðinga í fræðslustarfsemi verði sambærileg launum sérfræðinga á almennum markaði.
„Til að svo megi verða þarf að fjárfesta í kennurum og efla þannig skólastarf í landinu, auka þar með fagmennsku og stöðugleika, börnum til heilla. Viðræðunefnd KÍ mun áfram vinna að því verkefni undir verkstjórn ríkissáttasemjara með traust bakland félagsfólks að baki sér.“