Leikfélag Hafnarfjarðar hefur verið lagt niður og lýkur þar með 88 ára langri sögu félagsins. Leikfélagið hefur verið húsnæðislaust í nánast tvö ár.
Ekki er nema rúmt ár síðan Gaflaraleikhúsið í Hafnarfirði missti húsnæðið sitt og svo virðist sem að rekstrarumhverfi leikhúsa og leikfélaga sé orðið æ strangara.
Starfsemi Leikfélags Hafnarfjarðar var lögð niður á aðalfundi félagsins þann 29. október og félagið greinir frá því í dag í Facebook-færslu. Félagið þakkar öllum félögum sínum og áhorfendum fyrir góðar stundir.
„Þessi ákvörðun átti sér afar langan aðdraganda og var tekin einróma af fundarmönnum, en fundinn sátu félagar sem flestir hafa starfað áratugum saman hjá leikfélaginu. Þó ákvörðunin hafi reynst félagsmönnum afar þungbær, er þakklæti þó efst í huga fyrir þann fjársjóð sem félagið skilur eftir sig.“
Félagið var formlega stofnað 19. apríl 1936.
Í skýrslu formanns á aðalfundinum segir að bæjarfélagið eða íbúar í bænum geti hvenær sem er kosið að endurvekja starfsemi félagsins.
„Það er ósk okkar að svo verði, að stjórnendur bæjarins sjái mikilvægi þess að styðja við áhugaleikhúsið sem valkost í flóru lífsgæðaeflandi félagsstarfs fyrir íbúa bæjarins.“
Félagið greinir ekki beint frá þeim ástæðum sem liggja að baki ákvörðuninni um að leggja félagið niður, en leikfélagið hefur lengi átt í erfiðleikum með að finna hentugt húsnæði. Það hefur í raun verið húsnæðislaust frá 2022 eftir að það missti síðasta föstu aðstöðuna sína haustið 2022.
„Í leikfélaginu er pláss fyrir alla en því miður er ekki alltaf pláss fyrir leikfélagið. Þannig er bara lífið,“ skrifar félagið, sem kveðst tilbúið að leita á önnur mið „þar sem okkur er tekið opnum örmum“.
„Við erum tilbúin til þess að kveðja félagið okkar, sátt og þakklát, því við sem vorum félagið getum haldið áfram starfinu annars staðar og verðum áfram félagar í listinni um ókomna tíð,“ segir enn fremur í færslu félagsins.
„Leikfélag Hafnarfjarðar mun lifa í frásögnum og heimildum og ekki síst í minningum okkar allra sem höfum iðkað leiklistina undir merkjum félagsins. Leikfélag Hafnarfjarðar deyr aldrei, það bara leggur sig um stund og safnar kröftum og fer svo fíleflt aftur í gang þegar aðstæður innan bæjarins eru því hagstæðari.“
„Megi það hvíla í friði þangað til.“
Ekki er nema rúmt ár síðan Gaflaraleikhúsið í Hafnarfirði þurfti að finna sér nýtt svið þar sem húsnæðiseigendur seldu húsnæðið sem leikhúsið leigði við Víkingastræti. Á þeim tíma sagði Björk Jakobsdóttir leikhústjóri við mbl.is að það væri ákveðin krísa í leiklistarsenunni, þar sem leikhús séu lögð niður hvert á fætur öðru.