Ógn í háloftunum en ekki hætta

Þeir sem starfa við flugöryggi bregðast nú við nýrri hættu.
Þeir sem starfa við flugöryggi bregðast nú við nýrri hættu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þeir sem starfa við flu­gör­yggi í heim­in­um glíma nú við nýja ógn sem er til­kom­in vegna stríðsátaka víða um heim. Á átaka­svæðum reyna ríki að verj­ast loft­árás­um með því að brengla GPS-merki en það hef­ur hins veg­ar áhrif á flug­um­ferð á þeim svæðum. Þar með talið farþega­flug­vél­ar.

„Við höf­um séð nýja ógn við flu­gör­yggi og hún birt­ist okk­ur fyrst í mars árið 2023. All­veru­leg aukn­ing varð á þess­um til­fell­um í sept­em­ber 2023,“ seg­ir Jón Hörður Jóns­son, formaður ör­ygg­is­nefnd­ar Fé­lags ís­lenskra at­vinnuflug­manna (FÍA), þegar Morg­un­blaðið for­vitn­ast um þessa ógn sem áður hef­ur verið fjallað um hér í blaðinu.

Örygg­is­nefnd­in stóð ný­lega fyr­ir málþingi í Reykja­vík og þar voru til að mynda flutt er­indi um þessa nýju ógn og hvernig skuli bregðast við. „Þess­ar trufl­an­ir eru við aust­an­vert Miðjarðar­haf, í kring­um Beirút og Ísra­el. Einnig eru trufl­an­ir víða í Rússlandi og yfir Svarta­hafi. Þetta eru átaka­svæði og þess­ar trufl­an­ir tengj­ast hernaði. Þess­um trufl­un­um er ekki beint að flug­vél­um og mark­miðið er ekki að trufla flug­um­ferð. Rík­in sem eiga í hernaði eru að freista þess að trufla dróna og flug­skeyti og vernda sig þannig fyr­ir slík­um árás­um. En niðurstaðan er sú að þetta hef­ur einnig áhrif á þá flug­um­ferð sem er á þess­um svæðum þótt það sé ekki mark­miðið,“ seg­ir Jón Hörður.

GPS orðið alls­ráðandi

Til­fell­in eru mörg og nefn­ir Jón sem dæmi að full­trúi frá Qat­ar Airways hafi verið með er­indi á málþing­inu. Þar hafi komið fram að til­fell­in séu fleiri en þúsund á hverj­um ein­asta degi.

„Flug­leiðsögu­búnaður í nýrri flug­vél­um hef­ur tekið gíf­ur­leg­um tækni­breyt­ing­um á síðustu árum. Svo­kölluð tregðuleiðsögu­tæki hafa verið ráðandi í flug­heim­in­um í flug­leiðsögu og eru enn þá í öll­um flug­vél­um. Eldri vél­ar sem fram­leidd­ar voru áður en GPS-tækn­in ruddi sér til rúms not­ast við tregðuleiðsögu­tækni, sem er í raun og veru hröðun­ar­mæl­ar á þrem­ur ásum. Eldri vél­arn­ar notuðu jafn­framt sendi á jörðu niðri til að upp­færa þau tæki meðan á flugi stóð,“ seg­ir Jón Hörður og út­skýr­ir nán­ar.

Jón Hörður Jónsson flugstjóri og formaður öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna …
Jón Hörður Jóns­son flug­stjóri og formaður ör­ygg­is­nefnd­ar Fé­lags ís­lenskra at­vinnuflug­manna (FÍA). Ljós­mynd/​Aðsend

„Í nýj­um kyn­slóðum flug­véla eru GPS-tæk­in orðin alls­ráðandi í flug­leiðsögu. Þótt tregðuleiðsögu­tæki séu enn til staðar fer upp­færsl­an fram í gegn­um GPS-tækn­ina meðan á flugi stend­ur. Þegar trufl­un verður í GPS-tækn­inni brengl­ast tregðuleiðsögu­tæk­in einnig. Fleira er hægt að nefna sem teng­ist GPS, eins og jarðvar­ann sem var­ar okk­ur við ef við erum of nærri landi eða fjöll­um. Það bygg­ir á GPS-merk­inu og við brengl­un gæti GPS sýnt vél­ina í rangri hæð út af brengl­un í jarðvara­kerf­inu,“ seg­ir Jón Hörður og hið síðar­nefnda hljóm­ar vænt­an­lega ekki vel fyr­ir flug­hrædda en Jón bend­ir á að stund­um séu slík­ar viðvar­an­ir of fá­rán­leg­ar til að flug­menn taki mark á þeim, viðvar­an­ir sem séu aug­ljós­lega falsk­ar.

Til dæm­is þegar kerfið gef­ur falska viðvör­un um að stefnt sé á fjall þegar vél­in er í tölu­vert meiri hæð en hæsti fjallstind­ur heims. „Þá er eina leiðin að slökkva á jarðvar­an­um en það skap­ar aft­ur á móti ógn þegar flugið er lækkað inn til lend­ing­ar því þá ber­ast eng­ar viðvar­an­ir frá kerf­inu. Enn frem­ur get­ur brenglað GPS-merki haft áhrif á árekstr­ar­vara flug­véla.“

Gef­ur upp ranga staðsetn­ingu

Í þeirri ógn sem Jón Hörður ræðir um í viðtal­inu er ann­ars veg­ar talað um „GPS jamm­ing“ og hins veg­ar „GPS spoof­ing“ á ensku. Hann út­skýr­ir mun­inn á þessu tvennu.

„GPS jamm­ing lok­ar fyr­ir merkið og er ekki eins al­var­legt. Það hef­ur verið við lýði lengi og þekkt dæmi um GPS jamm­ing er þegar at­vinnu­bíl­stjór­ar lokuðu á GPS-merki til að vinnu­veit­end­ur gætu ekki fylgst með ferðum þeirra. GPS-tæki ná þá ekki merk­inu. Það hef­ur ekki svo mik­il áhrif í flugi. Þegar GPS nær ekki merk­inu tek­ur ann­ar búnaður í flug­vél­inni við í staðinn,“ seg­ir Jón en hin út­gáf­an af trufl­un­inni í GSP-kerf­inu er erfiðari viðfangs.

„GPS spoof­ing brengl­ar hins veg­ar GPS-merkið og breyt­ir því. Fyrstu dæm­in um slíkt voru á síðasta ári. Þegar merkið er brenglað gef­ur það rang­ar vís­bend­ing­ar um staðsetn­ingu flug­vél­ar­inn­ar.“

Verra í nýj­um flug­vél­um

Ætti al­menn­ing­ur að vera áhyggju­full­ur?

„Nei, þetta er ógn en ekki hætta. Ógnin krefst þess samt sem áður að við séum til­bú­in að bregðast við henni. Það felst í nýrri nálg­un og þjálf­un allra þeirra sem koma að þessu. Dæmi eru um það í Evr­ópu að vél­ar hafi misst alla flug­leiðsögu og þurft að reiða sig á stefnu gefna upp af flug­um­ferðar­stjóra til að kom­ast á leiðar­enda. Flug­um­ferðar­stjóri fylg­ir þá flug­inu eft­ir á rat­sjá og gef­ur leiðbein­ing­ar. Ógnin er sem sagt til staðar og var­an­leg lausn felst í end­ur­hönn­un á bæði hug­búnaði og vél­búnaði flug­vél­anna til þess að GPS-tæki vél­ar­inn­ar taki ekki við brengluðu merki,“ seg­ir Jón Hörður en tek­ur fram að þróun nýrr­ar tækni geti tekið tíma.

„Framtíðin mun vænt­an­lega bera þetta í skauti sér en all­ar svona breyt­ing­ar taka tíma. Þetta mun taka ein­hver ár. Við höf­um náð gíf­ur­leg­um ár­angri í flu­gör­yggi í heim­in­um á síðustu árum og ára­tug­um. Okk­ur hef­ur tek­ist að kom­ast yfir ýms­ar ógn­ir sem hafa steðjað að en við sjá­um nýj­ar ógn­ir sem þarf að bregðast við. Það sem er svo­lítið slá­andi er að viðkvæm­ustu flug­vél­arn­ar fyr­ir þess­ari ógn eru þær nýj­ustu og tækni­vædd­ustu vegna þess að lögð hef­ur verið svo mik­il áhersla á GPS-tækn­ina. Það sem við get­um gert í dag er að þjálfa áhafn­ir og þá sem koma að flugrekstri til að bregðast við þessu ásamt góðri grein­ingu á þess­um svæðum sem um ræðir.“

Viðtalið við Jón Hörð birt­ist fyrst í Morg­un­blaðinu hinn 17. októ­ber. 

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert