Viðreisn vill að nýskráningu á bensín- og díselbílum verði hætt á næsta ári, þó með undanþágum. Samfylkingin vill einnig gera það „raunhæft“ að banna nýskráningu slíkra ökutækja frá og með 2025.
Afstaða Viðreisnar kemur fram í málefnaskrá flokksins um umhverfis og auðlindamál á vef flokksins.
Stefna stjórnvalda í loftslagsmálum gerir ráð fyrir því að nýskráningar bensín- og dísilbíla verði almennt óheimilar eftir árið 2030, en losun vegna ökutækja og innviða mældist 33% af samfélagslosun Íslands árið 2022.
Fráfarandi ríkisstjórnin hafði það jafnvel „í skoðun“ – samkvæmt uppfærði aðgerðaráætlun í loftslagsmálum – að flýta banninu til ársins 2028 en því var ekki fylgt eftir.
Viðreisn, sem mælist nú næstvinsælasti flokkurinn samkvæmt skoðanakönnunum, hyggst taka enn stærra skref í þessum málum ef marka má málefnaskrá flokksins.
„Viðreisn vill að Ísland verði kolefnishlutlaust og laust við jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040. Því ætti að banna leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis í íslenskri lögsögu. Nýskráningu á bensín- og díselbílum verði hætt árið 2025, nema með sérstakri undanþágu til ársins 2030,“ segir í málefnaskrá flokksins sem samþykkt var á lansdþingi í febrúar 2023.
Samfylkingin, sem mælist með mest fylgi í skoðanakönnunum, segir í stefnu sinni að flokkurinn vilji gera það „raunhæft“ að hætta nýskráningu bensín- og dísilfólksbíla frá og með 2025.
„Samfylkingin vill stóraukinn stuðning við uppbyggingu rafhleðslu-, metan- og vetnisstöðva um allt land svo raunhæft verði að hætta nýskráningu bensín- og dísilfólksbíla frá og með árinu 2025. Einnig er brýnt að mótuð verði raunhæf en metnaðarfull áætlun um að hætta nýskráningu flutningabíla, hópferðabíla og vinnuvéla sem ganga eingöngu fyrir jarðefnaeldsneyti,“ segir í málefnaskrá Samfylkingarinnar.
Í stefnu Vinstri grænna er einnig tekið fram að banni við nýskráningu bensín- og dísilbifreiða „þurfi að flýta“ en skýr tímarammi er ekki gefinn þar upp.