„Þetta er aðför að lýðræðinu“

Sonur Jóns var tekinn upp í samræðum við mann sem …
Sonur Jóns var tekinn upp í samræðum við mann sem þóttist vera fjárfestir en var í raun starfsmaður á vegum ísraelsks fyrirtækis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísraelska njósnafyrirtækið Black Cube var að sögn Jóns Gunnarssonar ráðið til þess að afla gagna um hann í tengslum við hvalveiðar og tók upp samræður við son hans, sem vikuritið Heimildin gerði sér svo mat úr. Um er að ræða aðför að lýðræðinu að mati Jóns.

„Sonur minn lendir þarna í yfirheyrslu hjá þrautþjálfuðum leyniþjónustumanni sem er sérhæfður í yfirheyrslutækni hjá einni öflugustu leyniþjónustu í heimi,“ segir Jón í samtali við mbl.is.

Frægasti kúnni Black Cube er líklega Harvey Weinstein en hann réði fyrirtækið fyrir hundruð milljóna króna árið 2017 í viðleitni sinni til að bæla niður ásakanir fjölmargra kvenna um að hann hefði áreitt þær kynferðislega eða beitt þær ofbeldi.

Ekki vitað hver réði fyrirtækið til að rannsaka Jón

Heimildin birti frétt í morgun upp úr leyniupptökum af samræðum sonar Jóns við mann sem sigldi undir fölsku flaggi og þóttist vera fjárfestir. Heimildin kvaðst ekki vita fyrir hvern maðurinn vann en var þó með upptökurnar og skrifaði upp úr þeim frétt.

Ríkisútvarpið kveðst hafa heimildir fyrir því að um sé að ræða Black Cube sem réðst í aðgerðina. Fyrirtækið er stofnað af fyrrum Mossad-liðum og er með höfuðstöðvar í Tel Avív, Lundúnum og Madríd.

Hver réð Black Cube til verksins er þó önnur spurning. Jón veit það ekki en telur að það hljóti að vera einhverjar íslenskar tengingar og nefnir þar að auki svissnesk náttúruverndarsamtök.

Segir þetta vera aðför að lýðræðinu

Jóni er verulega brugðið að hér á Íslandi séu þrautþjálfaðir leyniþjónustumenn sem sonur hans verður fyrir barðinu á. „Þetta er aðför að lýðræðinu,“ segir Jón.

„Mér er sagt að þetta séu fyrirtæki sem fari ekki af stað nema það séu nokkrir eða margir tugi milljóna á borðinu. Markmiðið með þessu er auðvitað að reyna hafa áhrif á menn og málefni í pólitík til þess að geta haft áhrif á lýðræðislegar kosningar í landinu,“ segir Jón.

Hann segir að sonur sinn muni funda með lögmanni á morgun til að fara yfir stöðu sína.

„Hann er náttúrulega algjörlega miður sín eftir þetta,“ segir Jón um son sinn.

„Þetta er auðvitað gríðarlega ógeðfellt“

Bjóstu einhvern tímann við því að lenda í einhverju svona?

„Nei, aldrei. Maður er brynjaður eftir 18 ár í pólitík en að lenda í svona, þar sem börnin manns eru höfð að skotspóni af þrautþjálfuðum leyniþjónustumönnum í yfirheyrslutækni – að leita út í eitthvað fúafen – þetta er auðvitað gríðarlega ógeðfellt. Hverjir standa á bak við þetta? Vegna þess að þessi fyrirtæki eru bara að sinna störfum fyrir einhverja sem leigja þá. Hvort sem það eru einhver náttúruverndarsamtök í þessu tilfelli eða einhverjir aðrir. Maður bara spyr sig, hvert erum við komin í íslensku samfélagi?

Markmiðið með svona vinnubrögðum er auðvitað að koma höggi á málefni og menn til þess að geta haft hér áhrif á lýðræðislegar kosningar. Það er hægt að spegla þessi vinnubrögð á marga fleiri málaflokka. Það er líka áhyggjuefni þegar svona er í pottinn búið að það skuli vera íslenskir fjölmiðlar sem eru tilbúnir að taka svona efni, sem er svona fengið, og eru tilbúnir að birta það. Vera þátttakendur í svona vinnubrögðum,“ segir hann.

Eins og peð í höndum þeirra

Hann segir að hann sjálfur hafi alltaf getað verið viðbúinn því að verða fyrir pólitískum árásum en aldrei að börnin hans skyldu lenda í svona aðgerð.

Þetta hljóti að vera áhyggjuefni fyrir fólk sem er í pólitík og þá sem vilji taka þátt í framtíðinni.

„Hann [sonur Jóns] hefur verið eins og peð í höndunum á þeim. Þetta er gríðarlega ógeðfellt, hvernig á manni að geta dottið svona í hug? Þetta er eins og svæsnasti reifari,“ segir Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka