Haldi kvikusöfnun undir Svartsengi áfram á svipuðum hraða má gera ráð fyrir að lágmarksmörkum verði náð í lok nóvember, til að draga geti tekið til tíðinda.
Það magn sem talið er að þurfi að safnast saman er að lágmarki um 23 milljónir rúmmetra.
Miðað við túlkun nýjustu gagna og ef horft er til reynslunnar úr síðustu atburðum er þó ólíklegt að nægur þrýstingur verði búinn að byggjast upp til að koma af stað eldgosi í nóvember.
Þetta kemur fram í uppfærðu mati Veðurstofunnar á stöðunni á Reykjanesskaga.
Bent er á að í aðdraganda síðustu tveggja eldgosa hafi skjálftavirkni á svæðinu norðvestan við Grindavík farið vaxandi vikurnar áður en gosin hófust.
„Talið er að þessi skjálftavirkni sé vísbending um það að þrýstingur í kvikuhólfinu sé farin að aukast og það styttist í næsta atburð,“ segir í mati Veðurstofu.
„Ef markverð aukning á skjálftavirkni mælist á svipuðum tíma og rúmmál kviku undir Svartsengi er komið innan óvissumarka má gera ráð fyrir því að líkur á nýju kvikuhlaupi og mögulegu eldgosi séu farnar að aukast.
Líkurnar munu síðan aukast smám saman eftir því sem meira magn kviku bætist við og skjálftavirkni eykst. Mögulega þarf að gera ráð fyrir því að hætta á eldgosi sé talin mikil í nokkrar vikur áður en kvikuhlaup og mögulega eldgos hefst.“