Glíma enn við eftirköst E.coli-smits í Efsta dal

Í heild smituðust um sextíu börn á Mánagarði að sögn …
Í heild smituðust um sextíu börn á Mánagarði að sögn Valtýs Stef­áns­sonar Thors, yf­ir­lækn­is barna­lækn­inga á Land­spít­al­an­um. Samsett mynd

Eftir tilmæli sóttvarnalæknis um að skima öll börn á leikskólanum Mánagarði eftir E.coli-smit sem upp kom í október reyndust sextíu börn í heild hafa smitast. Af þeim hafa 45 börn verið í virku eftirliti.

Að sögn Valtýs Stefánssonar Thors, yfirlæknis barnalækninga á Landspítalanum, eru dæmi um að börn sem fengu E.coli-smit eftir heimsókn á Efstadal II glími enn við eftirköst eftir sýkingu sem kom upp þar árið 2019. Í heild smituðust níu börn þá.

Valtýr sagði í samtali við mbl.is í gær að ljóst væri að einhver barnanna glímdu nú þegar við eftirköst sýkingarinnar, sem aðallega felast í nýrnaskaða, en tíminn yrði að leiða það í ljós hvort skaðinn gengi til baka eða ekki.

Bjartsýnn á að börnin nái sér 

„Fylgikvilli af þessari sýkingu er þannig að það eru eiturefni sem bakterían losar við sig sem hafa áhrif á storkukerfi og það getur haft áhrif á ýmis líffæri. Nýrun eru sérstaklega viðkvæm fyrir þessum eituráhrifum,“ segir Valtýr.

Hann segir líkur á því að einhver barnanna muni glíma við sýkinguna þegar til lengri tíma er litið. Aðspurður segist hann þó bjartsýnn á að börnin muni hrista þetta af sér. 

„Ég er bjartsýnn á að börnin muni jafna sig vel þó að sum verði eilítið lengri tíma að ná sér,“ segir Valtýr.  

Enn með fylgikvilla eftir smit í Efstadal 

Hann segir það reglulega koma upp að börn komi á spítalann með E.coli-smit en ekki hafi komið upp hópsýking síðan í Efstadal árið 2019.

„Í því tilviki jöfnuðu flestir sig en það voru nokkur börn sem fengu fylgikvilla sem enn eru ekki endanlega leystir,“ segir Valtýr.

Að sögn Valtýs var gerð krafa um það hjá sóttvarnalækni að taka sýni af öllum börnum á leikskólanum. 45 voru í eftirliti á spítalanum en að auki smituðust einhver börn en voru einkennalítil.

„Heildarhópurinn sem hefur einhvern tímann verið með jákvætt sýni nálgast það að vera sextíu. Þetta kom í ljós eftir tilmæli sóttvarnalæknis um að skima öll þau börn sem höfðu einhvern tímann fengið einkenni. Þau skiluðu saursýnum og í þeim mátti sjá erfðaefni. Þetta voru eingöngu fæðuborin smit,“ segir Valtýr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka