Hitinn fór víða yfir 20 stigin

Það eru gular veðurviðvaranir víða um landið.
Það eru gular veðurviðvaranir víða um landið. Kort/Veðurstofa Íslands

Hitatölur á Norðausturlandi fóru víða yfir 20 stig í gærkvöld og í nótt og til á mynda mældist 22,9 stiga hiti á Sauðanesi við Ólafsfjarðarveg út við Múla skömmu fyrir miðnætti.

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur á Blika.is, greinir frá því á vef sínum að hitamet nóvembermánaðar sé 23,2 stig sem mældist á Dalatanga 11. nóvember 1999.

Það eru víða um landið gular viðvaranir í gangi vegna hvassviðris. Á Ströndum og Norðurlandi vestra er gul veðurviðvörun vegna sunnan storms og gætu vindhviður náð 35-40 m/s. Viðvörun á þessu svæði gildir fram til fimmtudags.

Þá eru gular viðvaranir í gildi á Breiðafirði, Vestfjörðum, Austurlandi að Glettingi, Suðausturlandi og á miðhálendinu. Viðvarirnar falla úr gildi fyrir hádegi á Breiðafirði og á Vestfjörðum en verða áfram í gildi í öðrum landshlutum fram til fimmtudags.

Í dag verða suðvestan 15-23 m/s. Rigning verður í fyrstu en skúrir síðdegis en léttskýjað norðaustan til. Það kólnar í veðri og hitinn verður 2-7 stig undir kvöld.

Á morgun dregur hægt úr vindi og hann verður 8-15 m/s undir kvöld. Dálitlar skúrir verða  í flestum landshlutum en þurrt að kalla austanlands. Hiti verður 5 til 10 stig. Fer að rigna á sunnan- og vestanverðu landinu um kvöldið.

Veðurvefur mbl.is

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert