Hnúkaþeyr skaut hitastiginu upp

Kortið sýnir hitaspá á landinu klukkan 7 í morgun.
Kortið sýnir hitaspá á landinu klukkan 7 í morgun. Kort/mbl.is

Hnúkaþeyr varð til þess að hitinn fór upp í 22,9 stig á Sauðanesi við Ólafsfjarðarveg úti við Múla skömmu fyrir miðnætti.

Hitametið í nóvember á landinu er 23,2 stig og mældist það á Dalatanga 11. nóvember árið 1999.

Áhugavert að sjá þróunina

Marcel de Vries, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, nefnir að áhugavert hafi verið að sjá hvernig hitastigið á svæðinu þróaðist í gær. Um áttaleytið í gærkvöldi var það komið í 17 til 18 stig en eftir klukkan 22 hafi vindurinn rokið upp með hviðum upp í 20 metra á sekúndu. Þarna hafi hnúkaþeyr skotið hitastiginu upp.

Ólafsfjörður.
Ólafsfjörður. mbl.is/Sigurður Bogi

Hitastigið fór hratt niður á Sauðanesi eftir miðnætti, eða í 15 til 16 stig. Núna er það komið í 14 stig. „Það er enn mjög hlýtt á þessu svæði. Seinnipartinn í dag kemur svalara loft inn frá vestri,“ segir Marcel, sem býst ekki endilega við því að hitametið frá árinu 1999 verði slegið úr þessu.

Gerist sjaldan 

Síðustu klukkustundina hafa verið 19 stig á Bakkagerði og 18 stig á Seyðisfirði. „Það gæti rokið upp í smástund fram að hádegi og farið yfir 20 gráður,“ segir Marcel.

„Þetta gerist ekki mjög oft en við erum í hlýju loftslagi með suðvestan hvassviðri og hnúkaþey. Þá kemur svona hlýtt loft.“

Frost um allt land um næstu helgi

Það mun síðan kólna á landinu seint í dag og á morgun.  Á föstudag er útlit fyrir að það snúist í vestan- og norðvestanátt og byrji að snjóa. Mikil snjókoma gæti orðið fyrir norðan á laugardaginn ásamt hríð og um helgina er síðan búist við frosti um allt land.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka