Hnúkaþeyr varð til þess að hitinn fór upp í 22,9 stig á Sauðanesi við Ólafsfjarðarveg úti við Múla skömmu fyrir miðnætti.
Hitametið í nóvember á landinu er 23,2 stig og mældist það á Dalatanga 11. nóvember árið 1999.
Marcel de Vries, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, nefnir að áhugavert hafi verið að sjá hvernig hitastigið á svæðinu þróaðist í gær. Um áttaleytið í gærkvöldi var það komið í 17 til 18 stig en eftir klukkan 22 hafi vindurinn rokið upp með hviðum upp í 20 metra á sekúndu. Þarna hafi hnúkaþeyr skotið hitastiginu upp.
Hitastigið fór hratt niður á Sauðanesi eftir miðnætti, eða í 15 til 16 stig. Núna er það komið í 14 stig. „Það er enn mjög hlýtt á þessu svæði. Seinnipartinn í dag kemur svalara loft inn frá vestri,“ segir Marcel, sem býst ekki endilega við því að hitametið frá árinu 1999 verði slegið úr þessu.
Síðustu klukkustundina hafa verið 19 stig á Bakkagerði og 18 stig á Seyðisfirði. „Það gæti rokið upp í smástund fram að hádegi og farið yfir 20 gráður,“ segir Marcel.
„Þetta gerist ekki mjög oft en við erum í hlýju loftslagi með suðvestan hvassviðri og hnúkaþey. Þá kemur svona hlýtt loft.“
Það mun síðan kólna á landinu seint í dag og á morgun. Á föstudag er útlit fyrir að það snúist í vestan- og norðvestanátt og byrji að snjóa. Mikil snjókoma gæti orðið fyrir norðan á laugardaginn ásamt hríð og um helgina er síðan búist við frosti um allt land.