Íslandsbanki var rétt í þessu sýknaður af kröfum tveggja lántakenda í Héraðsdómi Reykjaness í vaxtamáli. Málið varðar skilmála viðskiptabankanna og framkvæmd lána með breytilegum vöxtum en Neytendasamtökin töldu það ekki standast lög. Tugir milljarða eru taldir undir í málinu og sambærilegum málum.
Forsaga málsins er að Neytendasamtökin skipulögðu hópmálsókn árið 2021 gegn Landsbankanum, Íslandsbanka og Arion banka.
Við málarekstur var ákveðið að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins vegna skilmála lánanna, en EFTA eru Fríverslunarsamtök Evrópu.
Komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að skilmálar lána með breytilegum vöxtum á Íslandi væru óskýrir – hinn almenni lántakandi skildi ekki þá útreikninga sem vextirnir byggðu á.
Niðurstaðan málsins mun aðallega hafa þýðingu fyrir þá sem tekið hafa fasteignalán eftir að lög um fasteignalán til neytenda gengu í gildi þann 1. apríl 2017, að sögn Neytendasamtakanna en úrskurðurinn hefur einnig fordæmisgildi yfir lánum lífeyrissjóða.
Í fyrra komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu í máli gegn Landsbankanum að bankanum bæri að endurgreiða tveimur lántakendum ofgreidda vexti vegna láns með breytilegum vöxtum, þar sem skilmáli bankans var talinn ósamrýmanlegur lögum um neytandalán. Var málinu áfrýjað til Landsréttar sem mun taka málið fyrir í janúar.