Kallaði konur lævísar, undirförlar tíkur

Þórður Snær Júlíusson, blaðamaður og frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavíkukjördæmi norður gengst við því að hafa skrifað óviðurkvæmilegar greinar um konur, nafngreindar og ekki, undir dulnefni.

Þessar elskur

Þetta kemur fram í Spursmálum þar sem skrif á á bloggsíðunni www.thessarelskur.blogspot.com eru borin undir Þórð Snæ. Skrifin sem um ræðir eru frá árunum 2006-2007.

Skrifin eru öll undir dulnefni höfundar sem kallar sig German Steel eða „þýska stálið.“

Skrif þýska stálsins komust fyrst í opinbera umræðu þegar Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan kærði Þórð Snæ til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands vegna bloggfærslu undir sama dulnefni. Í kærunni leiddi Rannveig líkur að því að höfundurinn væri Þórður Snær en þar sagði meðal annars í texta við mynd af Rannveigu hana „daðra við að vera þroskahefta.“

Rannveig Rist forstjóri Rio Tinto á Íslandi.
Rannveig Rist forstjóri Rio Tinto á Íslandi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ekki skrifað sem blaðamaður

Kæru Rannveigar var vísað frá siðanefndinni þar sem  komist var að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða gildisdóma einstaklings en ekki snúið að störfum hans sem blaðamaður.

Þegar Vísir ræddi í nóvember 2007 við Þórð Snæ kom hann af fjöllum og taldi einkennilegt að „honum væru eignuð hin umdeildu skrif um Rannveigu Rist“ eins og það er orðað í fréttinni.

Í fyrrnefndu viðtali í Spursmálum gengst Þórður hins vegar við því að vera höfundurinn að baki stálinu þýska. Í þættinum eru meðal annars borin undir hann eftirfarandi skrif sem beinast almennt að konum:

„Konur eru flugklárar, miklu klárari en einfeldningarnir við sem getum mest átt þrjú áhugamál, þær taka eftir öllu og kryfja það. En þær eru líka lævísar, miskunnarlausar, undirförlar tíkur sem svífast einskis til að ná því fram sem þær vilja og helst með því að láta sjálfar sig líta út sem fórnarlömb atburðarásarinnar á meðan.“

Í viðtalinu segist Þórður Snær gangast við þessum ummælum og að hann beri ábyrgð á þeim. Hins vegar verði að taka tillit til þess að hann hafi skrifað þau í hálfkæringi og í ákveðinni „menningu“ þar sem margir menn hafi raunar lagt texta til bloggsíðunnar. 

Vala Garðarsdóttir, frambjóðandi Framsóknarflokksins fylgist með Þórði Snæ í þættinum.
Vala Garðarsdóttir, frambjóðandi Framsóknarflokksins fylgist með Þórði Snæ í þættinum. mbl.is/María Matthíasdóttir

Sat í stjórn UN Women

Þegar hann er spurður að því hvort þessi skrif lýsi þá ekki viðhorfum hans til kvenna, segir hann það af og frá. Þórður Snær sat um tíma í stjórn UN Women á Íslandi, en það var löngu eftir að þessi skrif birtust á alnetinu.

Í viðtalinu er vísað í fleiri skrif Þórðar Snæs í garð kvenna á bloggsíðunni www.thessarelskur.blogspot.com en þar sagði hann meðal annars:

„Það veita sér allir karlmenn unað. Hvort sem það er pabbi ykkar, biskupinn eða gæinn sem dælir bensíni á bílinn y, þeir fikta allir reglulega í draslinu á sér, það er í eðli okkar. Heimurinn yrði líklega óbærilegur ef að karlmenn gerðu ekki slíkt, þeir væru endalaust frústreraðir og pirraðir þar sem meirihluti kvenkyns viðurkennir ekki að þær séu jafn graðar og við og nota kynlíf til að stjórna körlum. Límið sem heldur heiminum saman er unaðsveitingin og aðal hjálparmeðal hennar er klámið.“

Viðtalið við Þórð Snæ má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka