Komu fólki til aðstoðar í Ísafjarðardjúpi

Frá aðgerðunum í nótt.
Frá aðgerðunum í nótt. Ljósmynd/Landsbjörg

Slysavarnarfélagið Landsbjörg sinnti verkefnum við Ísafjarðardjúp og á Siglufirði í gærkvöld og í nótt.

Veginum í Ísafjarðardjúpi var lokað í gærkvöld eftir að áin Rjúkandi í Hestfirði flæddi yfir veginn og þá féll einnig yfir hann aurskriða í sama firði.

Að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa hjá Landsbjörg, fóru björgunarsveitir að ánni Rjúkanda í Hestfirði. Þar virðist áin hafa náð að stíflast vegna framburðar undir brúna og flæddi yfir veginn.

Jón Þór segir að bílar frá björgunarsveitinni í Súðavík og Björgunarfélagi Ísafjarðar hafi farið á staðinn og ferjað fólk úr bílum, sem voru skildir eftir hinum megin við brúna, og ekið með það til Ísafjarðar.

Laust um klukkan eitt í nótt var óskað eftir aðstoð björgunarsveitar á Siglufirði þar sem þakkantur á sjúkrahúsinu var við það að fjúka af. Að sögn Jóns Þórs tókst að leysa það verkefni fljótt og vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka