Kristján Markús Sívarsson hefur verið dæmdur í 16 mánaða fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás þegar hann réðst í tvígang að konu í janúar árið 2022 þannig að hún hlaut meðal annars höfuðkúpubrot, opið sár á höfði og mar á heila.
Kristján varð þekktur fljótlega eftir aldamót sem annar svonefndra Skeljagrandabræðra. Komust þeir bræður ítrekað í kast við lögin allt frá barnsaldri. Var meðal annars farið yfir sögu þeirra í frétt á mbl.is árið 2014.
Við höggið féll konan niður í gólfið og brotnaði upp úr tönn hennar við það. Eftir árásina halda þau áleiðis frá heimili Kristjáns, en þar ræðst hann aftur að konunni og sparkar í hægri fótlegg hennar þannig að hlaut eymsli á hnéskel.
Kristján neitaði sök fyrir dómi. Dómurinn taldi hins vegar út frá framburði konunnar og vitnis að lögfull sönnun hafi verið um þá háttsemi og afleiðingar sem Kristjáni voru gefnar að sök.
Þá er Kristjáni gert að greiða konunni 800 þúsund í skaðabætur.
Í dóminum er löng brotasaga Kristjáns að hluta rakin, en hann hefur ítrekað verið dæmdur til refsingar frá árinu 1998, meðal annars sex sinnum áður fyrir ofbeldisbrot. Þá hefur hann ítrekað gerst brotlegur gegn lögum um ávana- og fíkniefna. Hlaut hann síðast tveggja mánaða dóm í apríl 2022 fyrir umferðarlagabrot.
Árið 2021 var Kristján dæmdur fyrir brot gegn hjálparskyldu með því að láta ógert að koma barnsmóður sinni undir læknishendur er hún veiktist alvarlega af kókaíneitrun með þeim afleiðingum að hún lést.
Höfðu fyrri afbrot mannsins ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar núna, auk þess sem honum var dæmdur hegningarauki vegna fyrri dóms. Þá er tekið fram að árásin sem hann er nú dæmdur fyrir hafi verið alvarleg og fólskuleg án nokkurs tilefnis.