Félag atvinnurekenda (FA) telur hæpið að lagastoð sé fyrir reglugerð heilbrigðisráðherra sem kveður á um að tóbaksvörur verði einsleitar í leðjubrúna litnum Opaque Couché, sem hefur verið kallaður ljótasti litur í heimi. FA vill að Alþingi taki málið til umræðu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá FA.
Reglugerðin, sem Willum Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra undirritaði 25. október eða eftir að ríkisstjórnin sprakk, á að taka gildi á næsta ári en ákvæðin um einsleitar umbúðir eiga að taka gildi 1. maí 2027.
Vörumerki framleiðandans mættu ekki vera á umbúðunum heldur þyrftu þær að vera einsleitar í fyrrnefndum lit, en hann hefur Pantone-númerið 448C, og heiti tóbaksvörunnar þarf að vera í litnum hvítt matt eða svart.
„Í lögum um tóbaksvarnir segir ekkert um einsleitar umbúðir og er því hæpið að mati FA að reglugerðin hafi lagastoð,“ segir í tilkynningu FA.
FA bendir á að vörumerki teljast til eignaréttinda og því sé reglugerðin inngrip atvinnufrelsi, en bæði eignar- og atvinnuréttinda njóta vernda stjórnarskrárinnar.
„FA fær ekki séð hvernig svo íþyngjandi ákvörðun, sem takmarkar stjórnarskrárvarin réttindi, á heima í reglugerð sem ráðherra setur og mótmælir því eindregið að 20. gr. verði að ákvæði í reglugerð. Svo umfangsmikið inngrip í atvinnufrelsi og friðhelgi eignarréttarins hlýtur að eiga að fá rækilega umfjöllun og umræðu á Alþingi,“ sagði í umsögn sem FA sendi heilbrigðisráðuneytinu í júní.
FA segir að heilbrigðisráðherra hafi gengið lengra en í Evrópureglum og því sé um að ræða gullhúðun.
Haft er eftir Ólafi Stephensen framkvæmdastjóra FA að honum finnist óverjandi að heilbrigðisráðherra grípi inn í stjórnarskrárvarinn atvinnu- og eignarréttindi.
„Slík inngrip geta átt rétt á sér út frá almannahagsmunum, en þau verða þá að vera lögfest og fá þá umræðu og skoðun á Alþingi sem slíkt verðskuldar. Það er sérstaklega gagnrýnivert að reglugerð ráðherra skuli undirrituð 25. október síðastliðinn, löngu eftir að ljóst mátti vera að ríkisstjórnin væri orðin starfsstjórn með takmarkað pólitískt umboð.“