Töluverð skjálftavirkni hefur verið nálægt Grímsey og Kópaskeri síðastliðinn sólarhring. Stærsti skjálftinn mældist 3,1 í Öxarfirði, um 10 kílómetra af Kópaskeri síðdegis í gær.
Bjarki Kaldalón Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að jarðskjálftar fari sjaldnast yfir þrjá í Öxarfirði en skjálftinn í gær er sá stærsti sem hefur mælst á þessu svæði í fjögur ár.
Hann segir að þetta sé ekkert til að hafa áhyggjur af en Veðurstofunni bárust engar tilkynningar frá fólki um að það hefði fundið fyrir skjálftanum.
„Það hefur verið smá skjálftaklessa mitt á milli Grímseyjar og Öxarfjarðar síðasta sólarhringinn en það er ekkert óalgengt á þessu svæði,“ segir Bjarki við mbl.is.