Sleginn yfir grófri framkomu gegn fjölskyldunni

Bjarni man ekki eftir öðru slíku á Íslandi.
Bjarni man ekki eftir öðru slíku á Íslandi. Samsett mynd

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að aðgerðin sem sonur Jóns Gunnarssonar varð fyrir barðinu á beri öll þess merki að verið sé að reyna að hafa áhrif á mögulega framvindu í aðdraganda kosninga.

Þetta segir forsætisráðherra í samtali við mbl.is.

Ísra­elska njósna­fyr­ir­tækið Black Cube var að sögn Jóns Gunn­ars­son­ar og annarra fjölmiðla ráðið til þess að afla gagna um hann í tengsl­um við hval­veiðar og tók upp sam­ræður við son hans, sem viku­ritið Heim­ild­in gerði sér svo mat úr.

Ólögmæt aðferð

Spurður hvort að hann muni eftir eitthvað þessu líkt hafi áður gerst á hans stjórnmálaferli segir Bjarni:

„Nei, ég man ekki eftir því að svona skipulögð starfsemi væri stunduð eins og þarna virðist hafa verið um að ræða. Bara fagmenn í að grafast fyrir um upplýsingar og er sjónum beint að stjórnmálamönnum og svo er það gert opinbert í aðdraganda kosninga.

Það fær mann til þess að hugsa um tilganginn og það fær mann til þess að hugsa um mikilvægi þess að lýðræðislegar kosningar geti farið fram án þess að verið sé að reyna hafa áhrif á niðurstöðuna með óeðlilegum – ólögmætum – aðferðum,“ segir Bjarni.

„Öll einkenni þess að vera ætlað að hafa áhrif“

Jón Gunnarsson sagði í samtali við mbl.is í gær um væri að ræða aðför að lýðræðinu. Spurður hvort að honum finnist að um sé að ræða óeðlileg erlend áhrif á íslenskt lýðræði og mögulega ákvörðun sem stjórnvöld áttu eftir að taka segir Bjarni:

„Á þessum tímapunkti, svona skipuleg dreifing af efni sem er safnað með ólögmætum hætti, finnst mér hafa öll einkenni þess að vera ætlað að hafa áhrif á atburðarás og mögulega framvindu í aðdraganda kosninga,“ segir Bjarni.

Vegið að undirstöðum lýðræðis víða

Hann segir menn þurfi að vera meðvitaðir um að hlutir sem gerist í öðrum löndum geti gerst á Íslandi.

Nefnir hann í því samhengi netárásir, undirróðursstarfsemi og tilraunir til að hafa áhrif á framgang lýðræðisins.

„Það er að gerast víða um Evrópu að það er vegið að undirstöðum lýðræðisins, til dæmis með fjölþátta ógnum og ég held að það sé full ástæða til að spyrja sig hvort að við séum ekki einfaldlega að horfa fram í eitthvað svipað hér,“ segir Bjarni.

„Ég ætla að bíða og sjá“

Er­lend­ur maður, sem kynnti sig sem sviss­nesk­an fjár­festi, hafði í sept­em­ber sam­band við son Jóns, sem er fast­eigna­sali. Kvaðst hann hafa áhuga á fjár­fest­ingu í ís­lensk­um fast­eign­um, kom til lands­ins og sótti son Jóns á bif­reið með einka­bíl­stjóra og skoðaði nokk­ur verk­efni um höfuðborg­ar­svæðið.

Maðurinn tók svo upp samræðurnar og kom áleiðis tl fjölmiðla. Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur við Háskóla Íslands, segir í samtali við mbl.is að það kosti verulega fjármuni að ráða svona njósnafyrirtæki. 

Spurður hver framvindan í málinu ætti að vera, til dæmis hvort að ríkislögreglustjóri ætti að taka upp málið, segir Bjarni að það hljóti að vera viðkomandi ríkisaðila að meta hvort að eitthvað eigi að aðhafast.

„Það er kannski ekki alveg tímabært að úttala sig um það og ég ætla að bíða og sjá, gefa viðkomandi aðilum tækifæri til þess að meta stöðuna. En á þessum tímapunkti er maður sleginn yfir því að það sé gengið svona gróflega fram gagnvart fjölskyldu þingmanns.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka