Spila golf í 15 stiga hita fyrir norðan

Kylfingar á Jaðarsvelli fyrr í vikunni. Í baksýn er snjólaus …
Kylfingar á Jaðarsvelli fyrr í vikunni. Í baksýn er snjólaus Vaðlaheiðin. Ljósmynd/GN

„Þetta er ákveðinn bónus að ná nokkrum hringjum í viðbót,“ segir Steindór Kr. Ragnarsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar, GA.

Vegna mikillar veðurblíðu fyrir norðan hafa fyrri níu holur Jaðarsvallar verið opnar síðan á þriðjudaginn fyrir viku. Fram að því hafði völlurinn verið lokaður í um þrjár vikur þegar hann var snævi þakinn. 

„Þetta gerist reglulega og það bætast alltaf einhverjir dagar með hverju ári á tímabilið,“ segir Steindór, spurður hvort það sé ekki óvenjulegt að völlurinn sé opinn á þessum árstíma.

Púttað á Jaðarsvelli.
Púttað á Jaðarsvelli. Ljósmynd/GN

Opið frá 10 til 16

Kylfingar geta skráð sig á rástíma frá klukkan 10 til 16 á daginn og þegar blaðamaður ræddi við Steindór um tíuleytið í morgun var fólk byrjað að spila á vellinum í 15 stiga hita. Hann segir aðsóknina hafa verið býsna góða síðustu vikuna.

Hann hefur ekkert þurft að slá völlinn enda vöxturinn enginn. „Það er lítið sem við gerum við völlinn annað en að opna hann og halda holunum góðum og við kannski færum þær.“

Steindór Kr. Ragnarsson.
Steindór Kr. Ragnarsson. mbl.is/Margrét Þóra

930 í klúbbnum og stutt í nýja inniaðstöðu

Aðsóknin á Jaðarsvöll í sumar var mjög góð, að sögn Steindórs, og fjölgaði klúbbmeðlimum umtalsvert meira en á meðalári. Einnig eru kylfingar úr öðrum sveitarfélögum duglegir að heimsækja völlinn. Í dag eru um 930 manns í GA og með krökkum í golfskólanum tengjast um 1.000 manns starfinu.

Vinna stendur jafnframt yfir við nýja inniaðstöðu klúbbsins með sex golfhermum og 18 holu púttvelli. Vonir standa til að hægt verði að opna hana í desember en framkvæmdir hófust síðasta haust.

Ljósmynd/GN
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka